Fréttir  • RoskunSkolastarf

Skólar, sundlaugar og stofnanir lokaðar frá kl. 14 í dag

10. des. 2019

Skóla- og frístundastarf Hafnarfjarðarbæjar mun raskast frá og með kl. 14 í dag, þriðjudaginn 10. desember vegna óveðurs sem spáð er að gangi yfir höfuðborgarsvæðið. Foreldrar og forráðamenn barna eru beðnir um að sækja börn sín í síðasta lagi kl. 14 til að tryggt sé að allir, börn, foreldar og starfsfólk geti náð heim til sín áður en veðrið skellur á. Enginn ætti að vera á ferli eftir klukkan 15 í dag nema brýn nauðsyn beri til. Eftir kl. 13 í dag ættu börn ekki að vera ein á ferli (gangandi heim) og eru foreldrar og forráðamenn beðnir um að gera viðeigandi ráðstafanir.

Helstu upplýsingar

  • Foreldrar og forráðamenn eru beðnir um að ná í börn sín fyrir kl. 14 í dag
  • Börn, foreldrar, starfsfólk og aðrir íbúar eiga að vera komnir heim kl. 15 í dag
  • Eftir kl. 13 eiga börn ekki að vera ein á ferli
  • Allt frístundastarf eftir kl. 14 fellur niður – frístundabíll gengur ekki
  • Allar sundlaugar og stofnanir Hafnarfjarðarbæjar verða lokaðar frá kl. 14
  • Íbúar eru hvattir til að binda niður alla lausamuni eða koma þeim í skjól
  • Ekki er gert ráð fyrir röskun á skólastarfi miðvikudaginn 11. desember
  • Allt gert til að tryggja 100% öryggi allra

Skólar og stofnanir Hafnarfjarðarbæjar lokaðar frá kl. 14

Appelsínugul viðvörun Veðurstofu sem gefin var út í gær gildir enn frá kl. 15 í dag. Gul viðvörun er í gildi frá kl. 13 – 15 þegar sú appelsínugula tekur við. Engin röskun er á skólastarfi í morgunsárið en foreldrar eru beðnir um að sækja börn sín í leik- og grunnskóla eða annað tómstundastarf fyrir kl. 14 í dag. Ef íbúar hafa ekki þegar fjarlægt eða bundið niður lausamuni eru þeir hvattir til þess að gera það hið fyrsta. Gert er ráð fyrir að allt það starf sem á sér stað eftir klukkan 14 í dag falli niður. Nær þetta til sundlauga Hafnarfjarðar, frístundaheimila, hæfingarstöðvar, ungmennahúss, Byggðasafns, Bókasafns Hafnarfjarðar og Hafnarborgar. Frístundabíll mun ekki ganga í dag. Samgöngutruflanir eru líklegar á meðan veðrið gengur yfir og truflanir á flugsamgöngum. Hætt er við foktjóni og eru byggingaraðilar hvattir til að ganga vel frá framkvæmdasvæðum. Búast má við hækkandi sjávarstöðu vegna áhlaðanda og líkur á að smábátar geta laskast eða losnað frá bryggju. Fólki er bent á að ganga vel frá lausum munum og sýna varkárni.

Hægt er að fylgjast með nýjustu upplýsingum á: https://www.vedur.is/vidvaranir

Lokanir skóla og stofnana eru tilkomnar vegna öryggisráðstafana en enginn ætti að vera á ferli í veðri eins og spáð er. Fólk er beðið um að fylgjast vel með veðri í fjölmiðlum og fylgja tilmælum yfirvalda.