Fréttir
  • Vinaleikar1

Áhersla á vináttu í heila viku

7. nóv. 2019

Þessa dagana stendur yfir VINAVIKA í grunnskólum Hafnarfjarðar sem hver og einn grunnskóli útfærir með sínum einstaka hætti. Vinavika er tilkomin vegna Dags gegn einelti þann 8. nóvember ár hvert sem helgaður er baráttunni gegn einelti. Grunnskólar í Hafnarfirði vildu strax taka baráttuna skrefinu lengra og leggja sérstaka áherslu á vináttu í heila viku í aðdraganda þessa dags sem haldinn var hátíðlegur í fyrsta skipti árið 2011.

Í vinaviku er samkennd og vinátta við völd í skólastarfinu. Í tilefni vinaviku var t.a.m. blásið til vinaleika í Öldutúnsskóla og Hvaleyrarskóla. Þannig er öllum nemendum skipt í hópa, þvert á árganga og aldur og fara hóparnir saman á stöðvar með fjölbreyttum verkefnum. Þannig er m.a. boðið upp á nudd, slökun, ólsen ólsen, lúdó og yatzy, kennslu á klukku og að reima skó, farið í snú snú og tetris, fundin samheiti á íslensku og dönsku, gerð laufblöð á vinatré og margt margt fleira. Vinaleikarnir eru hugsaðir sem góð og skemmtileg tilbreyting í skólastarfið sem gerir nemendur kleift að kynnast hver öðrum utan bekkjarins og milli árganga. Vinaleikarnir gagna líka út á það að sýna að allir hafa sínar sterku hliðar og eiga að fá tækifæri til að njóta á sínum eigin forsendum. Elstu nemendurnir hugsa vel um þá yngstu í sínum hópi, leiðbeina þeim og sýna þeim virðingu, umhyggju og kærleik. Plúsinn er að starfsfólk fær í gegnum vinaleika einnig tækifæri til að kynnast öllum nemendum skólans.

Í Víðistaðaskóla er hefð fyrir því að byrja vinavikuna á því að syngja saman lög sem tengjast vináttunni. Vinabekkjaverkefni skólans er sett af stað í vinaviku en þá sækja eldri vinir yngri vini til að fara saman í sönginn á sal. Í vinaviku er lögð áhersla á að fjalla um og vinna með vináttuna og góð samskipti, fjallað er um einelti og farið yfir eineltishringinn. Í Hvaleyrarskóla eru fjölgreuindarleikar (vinaleikar) haldnir þessa vikuna.

Dagur helgaður baráttunni gegn einelti

8. nóvember ár hvert er helgaður baráttunni gegn einelti í skólum. Á þessum degi eru jákvæð samskipti í fyrirrúmi og er skólasamfélagið hvatt til að taka höndum saman gegn einelti. Í einhverjum skólum klæðast nemendur og starfsfólk grænum lit til vitundarvakningar um baráttuna gegn einelti.