Fréttir  • 020720_HFJ_-18-small

Aðgengismál – reynslusögur og hugmyndir

28. maí 2021

Á samráðsvefnum Betri Hafnarfirði hefur verið stofnað svæði fyrir reynslusögur og hugmyndir um aðgengismál í sveitarfélaginu. Frumkvæði að stofnun svæðisins kemur frá starfshóp sem nýlega var stofnaður með það verkefni að marka heildstæða stefnu í aðgengismálum í Hafnarfirði.

Mótun heildstæðrar stefnu í aðgengismálum

Aðgengismál varða öll svið samfélagsins og ná yfir breitt svið, allt frá aðgengi að byggingum og almenningsrýmum til aðgengis að upplýsingum og þjónustu bæjarfélagsins. Hugmyndir og reynslusögur sem berast á Betri Hafnarfirði munu nýtast hópnum til að móta stefnuna og koma með tillögu að innleiðingaráætlun. Starfshópinn skipa fulltrúar starfsfólks, kjörinna fulltrúa auk Egils Fjeldsted frá ráðgjafaráðinu en því er ætlað að gæta hagsmuna fatlaðs fólks og vera bæjarstjórn til ráðgjafar um þau málefni. Ágúst Bjarni Garðarsson, formaður bæjarráðs, er formaður starfshópsins.

Svæðið á Betri Hafnarfirði verður opið í sumar fyrir ábendingum en starfshópurinn ráðgerir að skila af sér tillögu að stefnu og innleiðingaráætlun í september nk.