Fréttir
  • 20190215_122028_1557410055298

Aðgengi að sálfræðiþjónustu í nýju ungmennahúsi

9. maí 2019

Ákveðið hefur verið að opna á beinan aðgang að sálfræðiþjónustu í ungmennahúsinu Hamrinum og tryggja þannig greitt aðgengi að geðheilbrigðisþjónustu fyrir ungmenni á aldrinum 16-18 ára. Hafnarfjarðarbær hefur gengið til samninga við KöruConnect um þátttöku í tilraunaverkefni til tveggja ára.  Samningurinn mun tryggja betra aðgengi að sálfræðingum fyrir ungmenni sem sækja ungmennahúsið og færir þannig þjónustuna nær þeim. 

Hvað er KaraConnect og hvernig virkar þjónusta þeirra?

Ungmennahúsið Hamarinn hefur það að markmiði að bjóða ungmennum á aldrinum 16 - 25 ára upp á aðstöðu til að koma saman og vinna að áhugaverðum og skemmtilegum verkefnum og viðburðum. Samningur við KöruConnect er til þess fallinn að gera ungmennahúsið að miðstöð ungmenna í fleiru en afþreyingu og er sálrænn stuðningur ein sú mikilvægasta aðstoð sem hægt er að veita. KaraConnect er rafrænt verkfæri sem auðveldar ungu fólki að sækja sér sálfræðiþjónustu þegar hennar er þörf.  KaraConnect byggir á veflausn sem tengir saman skjólstæðinga og sérfræðinga í mennta-, velferðar- og heilbrigðisgeiranum. Hugbúnaðurinn, gerir skjólstæðingum kleift að þiggja og ólíkum sérfræðingum að veita, bestu fáanlegu þjónustu og meðferð sem völ er á, hvar og hvenær sem er í gegnum öruggt fjarfundakerfi. Markmiðið er að bylta aðgengi skjólstæðinga að sérfræðiþjónustu og um leið nútímavæða starfsumhverfi sérfræðinga.

Lykillinn er greitt aðgengi á tíma sem hentar ungmennunum sjálfum

Lykillinn er aðgengi og með tilkomu KaraConnect eru ungmennin ekki lengur háð því að sitja á biðstofu því til boða stendur að fundir fari fram í gegnum tölvur og snjalltæki. Þetta þýðir að ungmennin geta verið í öryggi heimilis síns að fá þjónustu frá fagaðila á tíma sem hentar þeim á þeim grundvelli sem þau treysta sér í. Starfsmenn ungmennahúss hjálpa þeim sem vilja nýta sér þessa aðstoð að læra á KaraConnect, bóka fyrsta tímann, velja leið sem hentar s.s. myndspjall, skrifast á eða mæta á stofu. Framhaldið ræðst svo af ungmenninu sjálfu og fagaðila. 

Mynd er tekin við opnun ungmennahúss í febrúar 2019.