Fréttir
  • Vinnuskoli

15% launahækkun í Vinnuskóla

30. mar. 2016

Hækkun á launum 14-16 ára í Vinnuskóla Hafnarfjarðar sumarið 2016 nemur 15%.  Launin í Vinnuskólanum eru því orðin sambærilegri við það sem í boði er fyrir aldurshópana fyrir svipuð störf innan annarra sveitarfélaga. Störf sem eru samfélaginu mjög mikilvæg.

Í fjárhagsáætlun Hafnarfjarðarbæjar fyrir árið 2016 voru heildarframlög til Vinnuskóla Hafnarfjarðar hækkuð úr 158 milljónum króna í 180 milljónir. Starfsemi Vinnuskólans í Hafnarfirði hefur breyst nokkuð hin síðari ár og er nú aukin áhersla lögð á skólann sem vinnustað með sömu skyldur og verklag og aðrir vinnustaðir sem ungt fólk sækir. Horft er til vinnusemi og ástundun, stundvísi og hegðunar og þannig lagður góður grunnur að starfstengdu uppeldi í góðu samstarfi við foreldra barnanna. 

Áhersla á umhverfismál og tómstundir

Vinnuskóli Hafnarfjarðar sinnir fyrst og fremst umhverfismálum og á þannig stóran þátt í því að hreinsa bæinn eftir snjóþungan vetur og hirða gróður, götur og göngustíga yfir sumartímann. Starfsfólk Vinnuskólans sinna mikilvægu hlutverki í því að skapa vænta ásýnd bæjarins, að hans sé þrifalegur og snyrtilegur á að líta, fyrir íbúa og ferðamenn sem sækja bæinn heim í auknum mæli. Stór hópur starfar einnig á leikjanámskeiðum bæjarins og íþróttafélaga þar sem þau læra að starfa með hóp yngri barna, veita þeim tilsögn og ráðleggingar. Slík störf eru gefandi og mótandi til framtíðar. Vinnuskólinn er opinn frá júní fram í ágúst og er áhersla lögð á fjölbreytt störf  og að allir starfsflokkar fái að takast á við ýmis verkefni. Rúmlega áttahundruð ungmenni störfuðu hjá Vinnuskóla Hafnarfjarðar sumarið 2015 eða um 70% hafnfirskra ungmenna á aldrinum 14-16 ára.