Umferð um vefinn
Vefmælingar gegna lykilhlutverki í vefþróun. Ákvarðanir um næstu skref og þróun vefja byggja á upplýsingum um notkun og þannig eru m.a. heimsóknir inn á vefinn rýndar, fjöldi gesta skoðaður og upplýsingar fengnar um hvaðan gestir koma inn á vefinn. Ábendingar sem berast eru skoðaðar og rýnt í hvaða efni er mest lesið og hvað er minnst skoðað. Eins hvaða upplýsingar það eru sem gestir leita helst að í gegnum leitarglugga. Allar þessar upplýsingar eru nýttar til að gera vefinn aðgengilegri og áhugaverðari og það út frá þörfum og notkun. Um er að ræða enn eina nýjungina í upplýsingaþjónustu bæjarins.
Umferð um vefinn er nú öllum sýnileg
Þessar vefmælingar hafa legið til grundvallar í þróun vefs Hafnarfjarðarbæjar síðustu árin en hingað til hafa þessar mælingar ekki verið opinberar. Gögnin eru stöðugt uppfærð en þau eru sótt í Google Analytics vefgreiningartólið.
- Hvernig fór með fréttina sem fór í loftið í síðustu viku, var hún eitthvað lesin?
- Er einhver búinn að skoða viðburðina í dag?
- Eru þetta bara Hafnfirðingar sem skoða vefinn?
- Að hverju leita notendur og hvaða orð nota þeir?
Gestir og notendur eru beðnir um að taka þátt í stafrænni vegferð með sínu sveitarfélagi með því að segja sína skoðun á vefnum með ábendingavirkni á undirsíðum: Var efnið hjálplegt? eða með því að koma skilaboðum á framfæri í gegnum netfangið hafnarfjordur@hafnarfjordur.is.
Markmiðið er að búa til notendavænan vef sem fylgir þörfum og miðlar efni sem fólk skilur. Framundan eru áframhaldandi spennandi verkefni í stafrænni þróun. Þessi gögn verða nýtt í þeirri þróun ásamt því að virku sambandi verður komið á við notendur á næstu misserum.
Fylgist endilega með þessari þróun og takið þátt.