Vetrarfrí í Hafnarfirði
Frítt er í sund í vetrarfríi grunnskólanna og söfnin bjóða uppá spennandi dagskrá fyrir grunnskólabörn og fjölskyldur þeirra.
Vetrarfrí er í grunnskólum Hafnarfjarðar mánudaginn og þriðjudaginn 22.-23. febrúar og víðar um land og sameiginlegur skipulagsdagur 24. febrúar. Af því tilefni er m.a. frítt í sund fyrir börn og fullorðna þessa daga í Ásvallalaug, Suðurbæjarlaug og Sundhöll Hafnarfjarðar.
Heilsubærinn Hafnarfjörður býður börnum og fjölskyldum þeirra að taka þátt skemmtilegu bingói í vetrarfríinu en þar eru hugmyndir að góðri afþreyingu fyrir alla fjölskylduna og litli ratleikur Hafnarfjarðar 2021 leiðir þátttakendur á 15 nýja áhugaverða staði sem m.a. vekja athygli á sögu bæjarins. Þá hefur Brettafélag Hafnarfjarðar sett upp æfingabraut úr plasti í brekkuna á Víðistaðatúni.
Grunnskólabörn eru boðin sérstaklega velkomin í Bókasafn Hafnarfjarðar í vetrarfríinu, en þar verður staðið fyrir ratleik um safnið, sem hefur nýlega gengist undir yfirhalningu, svo það er ekki seinna vænna en að læra á nýja bókavölundahúsið! Vinningar eru að sjálfsögðu í boði fyrir skörp lið sem ná að klára, og dregið verður úr innsendum svörum miðvikudaginn 24. febrúar. Leikar hefjast á laugardeginum 20. febrúar. Mánudaginn 22. febrúar fer einnig upp verkefnið ‘Bókakjóllinn', þar sem gestum og gangandi gefst færi á að deila með okkur sínum uppáhaldsbókum, ljóðum, höfundum, tilvitnunum, ja, eða bara hverju sem er, og hanna með okkur tískuundur sem verður aðgengilegt og til sýnis á fyrstu hæð.
Á Byggðasafni Hafnarfjarðar verður hægt að taka þátt í skemmtilegum og fróðlegum ratleik fyrir fjölskylduna sem leiðir gesti um safnið og Hafnarborg býður grunnskólabörnum að koma og taka þátt í skemmtilegum og skapandi listasmiðjum á vegum safnsins.
Laugardagur 20. febrúar
- Ratleikur hefst um Bókasafn Hafnarfjarðar kl. 11. Opið til kl. 15.
- Byggðasafn Hafnarfjarðar opið kl. 11-17. Ratleikur og áhugaverðar sýningar.
- Sýningarnar Hafnarfjörður, verk úr safneign, og Það sem fyrir augu ber, sýning á verkum Gunnars Hjaltasonar, í Hafnarborg. Opið kl. 12-17.
Sunnudagur 21. febrúar
- Byggðasafn Hafnarfjarðar opið 11-17. Ratleikur og áhugaverðar sýningar.
- Sýningarnar Hafnarfjörður, verk úr safneign, og Það sem fyrir augu ber, sýning á verkum Gunnars Hjaltasonar, í Hafnarborg. Opið kl. 12-17.
Mánudagur 22. febrúar
- Kl. 6:30-22 FRÍTT Í SUND í Ásvallalaug, Suðurbæjarlaug og Sundhöll (til kl. 21)
- Bókakjóllinn fer upp á Bókasafni Hafnarfjarðar kl. 10
- Borðspilapop-up í fjölnotasal Bókasafns Hafnarfjarðar
- Byggðasafn Hafnarfjarðar opið kl. 11-17. Ratleikur og áhugaverðar sýningar.
- Prent-listasmiðja í Hafnarborg kl. 13-15. Notast verður við gel-plötur við prentun grafíkverka.
Þriðjudagur 23. febrúar
- Kl. 6:30-22 FRÍTT Í SUND í Ásvallalaug, Suðurbæjarlaug og Sundhöll (til kl. 21)
- Skúlptúragerð í Hafnarborg kl. 13-15. Stór og smá, þrívíð listaverk verða til úr fjölbreyttum efnivið.
- Sögustund fyrir yngri krakka - Bókasafn Hafnarfjarðar - 14-14:30
- Sögustund fyrir eldri krakka - Bókasafn Hafnarfjarðar kl. 15-15:30
- Tónleikar með Fjöru - Bókasafn Hafnarfjarðar kl. 17-17:30
- Byggðasafn Hafnarfjarðar opið 11-17. Ratleikur og áhugaverðar sýningar.
Miðvikudagur 24. febrúar
- Kl. 6:30-22 FRÍTT Í SUND í Ásvallalaug, Suðurbæjarlaug og Sundhöll (til kl. 21)
- Krakkaljóð og kósí (Komið með teppi!) - Bókasafn Hafnarfjarðar kl. 12-13
- Dregið í ratleik - Bókasafn Hafnarfjarðar kl. 14
Þá hefur heilsubærinn Hafnarfjörður tekið saman heilt stafróf af hugmyndum að fjölmörgu spennandi og skemmtilegu sem fólk getur tekið sér fyrir hendur heimavið eða í næsta nágrenni. Þar er hægt að nálgast fullt af hugmyndum að einhverju nýju og öðruvísi að gera einn eða með fjölskyldunni. Hér á vefnum er einnig hægt að nálgast lista yfir sérstæð náttúrufyrirbrigði og áhugaverða staði og fjölda göngu- og hjólaleiða sem liggja um Hafnarfjörð.
Heilsubærinn Hafnarfjörður óskar íbúum og vinum Hafnarfjarðar gleðilegs vetrarfrís!