Viðburðir framundanViðburðir framundan
  • Hreyfivikan2017

Hreyfivikan 2017

  • 29.5.2017 - 4.6.2017, 8:00 - 23:59, Hafnarfjörður

Tökum virkan þátt í Hreyfivikunni 2017 – samfélagslegt átak

Hreyfivika „Move week“ verður haldin dagana 29. maí - 4. júní um gjörvalla Evrópu. Hafnarfjörður, mun í fyrsta sinn taka virkan þátt í Hreyfivikunni þetta árið. Markmið Hreyfivikunnar er að kynna kosti virkar hreyfingar og almennrar þátttöku í íþróttastarfi til heilsubótar og talar markmið vikunnar beint saman við markmið heilsustefnu Hafnarfjarðarbæjar sem nýlega var kynnt til sögunnar.

Í tilefni Hreyfivikunnar eru íþróttafélög, stofnanir, fyrirtæki, einstaklingar og félagasamtök hvött til að bjóða upp á fjölbreytta dagskrá. Hugmyndin er að boðberar hreyfingar í Hafnarfirði noti tækifærið og bjóði upp á opna kynningartíma, fróðlega fyrirlestra, hlaupanámskeið, gönguferðir, mælingar eða hvaða viðburði sem er sem tengjast hreyfingu og hollustu að einhverju leyti. Mikill fjöldi samtaka um allan heim, fyrirtæki og einstaklingar leggja sitt af mörkum við að skipuleggja viðburði þessa vikuna, kynna það starf sem þegar er til staðar og smita frá sér jákvæðu hugarfari tengdu hreyfingu og þannig gerir margt smátt eitt stórt. Byggðasafn Hafnarfjarðar mun standa fyrir sögugöngu um nýja sýningu á Strandstígnum í Hreyfivikunni, Hafnarborg fyrir hjólaferð milli útilistaverka og sundlaugar Hafnarfjarðar fyrir kílómetraskráningu í öllum þremur sundlaugunum. Hafnarfjörður tekur þátt í sundkeppni sveitarfélaganna sem fer fram alla vikuna í Ásvallalaug, Suðurbæjarlaug og Sundhöllinni. Þátttakendur skrá hversu marga metra er synt á hverjum degi á eyðublað sem liggur frammi í afgreiðslu sundlauganna og skrá þannig sínar ferðir og taka þátt fyrir hönd Hafnarfjarðar. Við hvetjum því alla bæjarbúa til þess að leggja leið sína í laugarnar og taka þátt. 

Boðberar hreyfingar láta hlutina gerast og standa fyrir viðburðum

Boðberar hreyfingar í Hreyfivikunni láta hlutina gerast og standa fyrir viðburðum. Það geta allir orðið boðberar en herferðin er hugsuð þannig að samfélagið í heild vinni saman, sem flestir verði virkir og gefi af sér. Hugmyndin er að virkja kosti náungans með þeim hætti að allir fái að njóta sín og smiti af sér. 

Upplýsingar um nokkra möguleika til hreyfingar í Hafnarfirði

Fjöldi göngu- og hjólaleiða liggja um Hafnarfjörð sem henta vel til útivistar fyrir alla fjölskylduna.  Í Hreyfivikunni ættu allir ættu að geta fundið hreyfingu við sitt hæfi. Aðstaða til útivistar í nágrenni Hafnarfjarðar er einstök og við hvetjum íbúa til þess að nýta fjölbreytt útivistarsvæði til heilsubótar. Það væri t.d. hægt að fara með "fjölskylduna á fjallið" og ganga á Helgafell og skrá nafn sitt í gestabók á toppnum. Þá eru fjölmargir opnir leik og sparkvellir um allan bæ.

Metnaðarfull heilsustefna fyrir heilsubæinn Hafnarfjörð

Hafnarfjarðarbær gekk til samninga við Embætti landlæknis í mars 2015 um þátttöku í verkefninu Heilsueflandi samfélag og hefur sveitarfélagið í samstarfi við íbúa, starfsmenn og aðra hagsmunaaðila mótað heilsustefnu Hafnarfjarðarbæjar og lagt fram aðgerðaáætlun sem talar beint saman við stefnuna. Í heilsustefnu Hafnarfjarðar er eitt aðalmarkmiðið að hlúa að almennri vellíðan íbúa, andlegri og líkamlegri, á öllum aldri og styrkja og efla sjálfsmynd og góða líðan. M.a. er lagt til aukið samstarf við félagasamtök, fagfólk, áhugafólk og heilsugæslu vegna heilsueflingar og vellíðunar og að upplýsingagjöf verði aukin varðandi þjónustu sem er í boði á því sviði. Að byggður verði upp samstarfsvettangur viðkomandi aðila þar um, með þátttöku ungmennaráðs, öldungaráðs, ráðgjafaráðs, nýbúaráðs og hverfisráðs þar sem meðal annars verði unnið að verndandi þáttum gegn kvíða og vanlíðan. Lagt er til að sálfræðiþjónusta verði efld innan leik- og grunnskóla bæjarins. Einnig er lögð áhersla á að stuðlað verði að heilsusamlegu fæðuúrvali í stofnunum og mannvirkjum innan bæjarins, unnið að hvatningu og fræðslu um holla næringu, könnuð hljóðvist og tími til matar í skólum og áhersla lögð á að minnka sóun. Til stendur einnig að efla og vekja athygli á göngustígum og opnum svæðum í bænum sem útivstarsvæði fjölskyldunnar og auka aðgengi að sundlaugum bæjarins. Heilsustefnan styður við þá sýn Hafnarfjarðarbæjar til framtíðar að auka vellíðan íbúa bæjarins með fyrirbyggjandi aðgerðum.

Sjá heilsustefnu Hafnarfjarðarbæjar HÉR