Viðburðir framundanViðburðir framundan

Bóka- og bíóhátíð

  • 6.10.2021 - 13.10.2021

Dagana 6. - 13. október verður fjölbreytt menningardagskrá fyrir börn í Hafnarfirði þar sem áhersla er lögð á bækur og kvikmyndir.

Bóka- og bíóhátíð 6. - 13. október 2021

Bóka- og bíóhátíð er menningarhátíð fyrir börn í Hafnarfirði þar sem áhersla er lögð á bækur og kvikmyndir. Tilgangur hátíðarinnar er að efla áhuga barna á lestri og læsi í víðum skilningi og styður þannig við læsisverkefni leik- og grunnskóla bæjarins, LESTUR ER LÍFSINS LEIKUR.

Menningarhátíðin er haldin í október í nánu samstarfi Hafnarfjarðarbæjar við Bókasafn Hafnarfjarðar, Hafnarborg, grunnskóla, leikskóla, frístundaheimili, Bæjarbíó og fleiri aðila. Yfirlýst markmið hátíðarinnar er að hvetja börn á öllum aldri til virkrar þátttöku í uppbyggjandi og áhugaverðum læsis- og menningarverkefnum og –viðburðum meðan á hátíðinni stendur.

Ókeypis aðgangur er á alla viðburði á Bóka- og bíóhátíð.

Opnunarviðburður í Hellisgerði miðvikudaginn 6. október kl. 11

Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri setur hátíðina og vígir bókavita á horni Hellisgötu og Reykjavíkurvegar ásamt fimm ára leikskólabörnum úr leikskólunum Álfabergi og Víðivöllum sem „Karlar í skúrum“ hafa smíðað fyrir heilsubæinn Hafnarfjörð.

Kvikmyndagerðarmaðurinn Gunnar Björn heimsækir 8. bekkinga

Gunnar Björn Guðmundsson kvikmyndaleikstjóri heimsækir nemendur í 8. bekk í grunnskólum Hafnarfjarðar og fjallar um kvikmyndagerð, ræðir við nemendur og fjallar um vinnuferlið í kvikmyndagerð. Hann mun segja frá starfi sínu og fræða börnin um það hvernig kvikmynd verður til, allt frá fyrsta handriti að fullunnu verki. Gunnar Björn hefur unnið við leikhús, sjónvarp og kvikmyndir í rúma tvo áratugi. Gunnar Björn hefur meðal annars leikstýrt áramótaskaupinu, sjónvarpsþáttum um Ævar vísindamann og kvikmyndunum Astrópíu, Gauragangi og nú síðast Ömmu Hófi sem var að stóru leyti tekin upp í Hafnarfirði og frumsýnd í Bæjarbíó.

Litla gula syrpan

Nemendum á yngsta stigi grunnskóla (eða hluta hópsins) verður boðið upp á leiksýninguna Litla gula syrpan sem Leikhópurinn Lotta sýnir en söguna um litlu gulu hænuna þekkja flestir en ævintýrið hefur verið notað í fleiri áratugi til að kenna börnum mikilvægi þess að allir hjálpist að. Sýningin er því full af fallegum boðskap, frábærum húmor að hætti Lottu og góðum lögum.

Harry Potter maraþon í Hamrinum

Hamarinn, ungmennahús Hafnarfjarðar, býður uppá Harry Potter kvikmyndamaraþon föstudaginn 8. október kl. 20:00.

Verur og vídeó – Listasmiðja í Hafnarborg sunnudaginn 10. október kl. 14-16

Hafnarborg býður upp á skapandi listasmiðju í tengslum við sýninguna, Samfélag skynjandi vera, þar sem skilningarvitin fimm(sjón, heyrn, snerting, bragð og lykt) verða skoðuð. Þátttakendur fá tækifæri til að búa til sína eigin skynjandi veru úr fjölbreyttum efnivið. Leiðbeinandi er Ólöf Bjarnadóttir, fræðslufulltrúi Hafnarborgar.

Afhending menningarstyrkja á Bókasafni Hafnarfjarðar kl. 17 mánudaginn 11. október

Menningar- og ferðamálanefnd veitir styrki til viðburða og menningarstarfsemi.

Svarti skafrenningurinn (Fenrir Films) í Bæjarbíó kl. 17 miðvikudaginn 13. október

Fenrir Films er íslenskt framleiðslufyrirtæki sem sérhæfir sig í vinnslu á myndrænu efni. Svarti Skafrenningurinn er eitt af þeirra fyrstu verkefnum. Hér má sjá að ekkert stoppar unga kvikmyndagerðarmenn í ham, og hefur fyrirtækið gefið út 17 titla síðan þá, sem hafa hlotið sýningar á kvikmynda- og stuttmyndahátíðum um allan heim.

Með á sýningunni verður framleiðslustjóri Fenrir Films, Arnar Benjamín, og situr fyrir svörum.

VFX/Brellugerð - Fyrirlestur með Rob Tasker í Bæjarbíói kl. 18:00 13. október

Í tilefni Bóka- og bíóhátíðar fær Bókasafn Hafnarfjarðar til sín brellugerðarmeistarann Rob Tasker. Sem fagstjóri myndbreytinga við kvikmyndaskóla Íslands gefur Rob ekki aðeins innsýn hversu fjölbreytt og margslungið brelluverk nútímakvikmynda getur verið, heldur einnig hvernig má best fóta sig í að feta tæknibrellubreytinga.

Rob hefur unnið við kvikmyndir, sjónvarp og auglýsingar og er með yfir 40 titla á sínum starfsferli. Hann hefur m.a. verið tilnefndur til Emmy-verðlauna fyrir sjónvarpsseríuna "Hannibal" og unnið við framleiðslu við hin ýmsu fyrirtæki eins og SagaFilm, Universal Pictures, Warner Brothers, 20th Century Fox og New Line Cinema.

Fyrirlesturinn er á ensku.

Astrópía í Bæjarbíó kl. 19:30 miðvikudaginn 13. október

Íslensk kvikmynd frá 2007 eftir Gunnar B. Guðmundsson sem var að miklu leyti tekin í Hafnarfirði. Eftir að kærasti Hildar er settur í fangelsi neyðist hún til að fá sér vinnu í „nördabúðinni“ Astrópíu þar sem hún kynnist mörgum skrautlegum karakterum sem kynna hana fyrir heimi hlutverkaspila.

Á undan Astrópíu verður Karamellumyndin eftir Gunnar B. sýnd. Stuttmyndin segir frá lögreglumanni og aðstoðarkonu hans sem reyna að upplýsa röð dularfullra glæpa, sem virðast tengjast með óbeinum hætti. Þá verður stuttmyndin „Ég er bara að ljúga er það ekki?“ og örþættirnir „Hafnarfjörður í Hnotskurn“ einnig sýndir en verkefnin voru unnin í skapandi sumarstörfum í Hamrinum sumarið 2021.

Byggðasafn Hafnarfjarðar

Byggðasafn Hafnarfjarðar býður skólahópum að koma virka daga á sérstaka sýningu um sögu kvikmyndahúsanna í Hafnarfirði og aðrar fastar sýningar á safninu

Ísland á filmu

Kvikmyndasafn Íslands vekur athygli á vefnum www.islandafilmu.is en þar er hægt að skoða myndefni úr fórum Kvikmyndasafns Íslands, allt frá árinu 1906. Á 2. hæð á Bókasafni Hafnarfjarðar verður hægt að prófa vefinn alla vikuna.

Nærbuxnaverksmiðjan í fjölnotasal Bókasafns Hafnarfjarðar

Nú hafa krakkarnir tekið yfir Nærbuxnaverksmiðjuna! Í samstarfi við Bókasafn Hafnarfjarðar skiptu fjögur frístundaheimili með sér köflum úr bók Arndísar Þórarinsdóttur, Nærbuxnaverksmiðjan (2018), og festu hana á filmu. Krakkarnir sáu um handrit, búninga, leikmynd, leik og tökur undir handleiðslu starfsfólks frístundaheimilanna. Myndin verður í sýningu í fjölnotasal Bókasafns Hafnarfjarðar yfir hátíðina.

Þá verður fjölbreytt dagskrá í leik- og grunnskólum alla vikuna