Viðburðir framundanViðburðir framundan
  • Bokahilla-tilbuin

Bóka- og bíóhátíð

  • 11.10.2019 - 18.10.2019

Bóka- og bíóhátíð er menningarhátíð fyrir börn í Hafnarfirði þar sem áhersla er lögð á bækur og kvikmyndir. Tilgangur hátíðarinnar er að efla áhuga barna á lestri og læsi í víðum skilningi og styður þannig við læsisverkefni leik- og grunnskóla bæjarins. Að þessi sinni gefst einnig einstakt tækifæri til þess að sjá bók verða að leikriti þegar Gaflaraleikhúsið setur upp Mömmu klikk! eftir samnefndri bók Gunnars Helgasonar en dagskrá hátíðarinnar í ár tekur mið af verkum hans.

Menningarhátíðin er haldin í október í nánu samstarfi Hafnarfjarðarbæjar við Bókasafn Hafnarfjarðar, Hafnarborg, grunnskóla, leikskóla, frístundaheimili, Bæjarbíó, Gaflaraleikhúsið og fleiri aðila. Yfirlýst markmið hátíðarinnar er að hvetja börn á öllum aldri til virkrar þátttöku í uppbyggjandi og áhugaverðum læsis- og menningarverkefnum og –viðburðum meðan á hátíðinni stendur.

Ókeypis aðgangur er á alla viðburði á Bóka- og bíóhátíð nema sýningar á Mömmu klikk!

Föstudagur 11. október

Kl. 9:30 og 10:30 Opnunarhátíð í Gaflaraleikhúsinu
Nemendum í 4. bekk grunnskólanna er boðið á opnunina. Bæjarstjóri Rósa Guðbjartsdóttir flytur ávarp og setur hátíðina, Gunnar Helgason rithöfundur les uppúr bók sinni Mömmu klikk! og gestir fá að fylgjast með ferlinu hvernig bók verður að leikriti og fá að sjá brot úr sýningunni.

Laugardagur 12. október

Kl: 11:30-13:30 Hannaðu þína eigin bókakápu eða veggspjald í Bókasafni Hafnarfjarðar
Hvernig kemur maður heillri kvikmynd á eitt veggpjald? Hér er tækifæri til að prófa sig áfram í hönnun og teikningu. Við sýnum afraksturinn út hátíðarvikuna!

Sunnudagur 13. október

Kl. 13 Fjölskyldusmiðja í Hafnarborg
Boðið verður upp á skemmtilega og skapandi listasmiðju fyrir börn og fjölskyldur í Hafnarborg í tengslum við Bóka- og bíóhátíð í Hafnarfirði. Smiðjan mun fara fram í Apótekssalnum á fyrstu hæð safnsins. Þátttaka í smiðjunni er gestum að kostnaðarlausu, auk þess sem aðgangur að sýningum safnsins er ókeypis, eins og venjulega.

Kl. 15:00 Bíósýning í Bæjarbíó
Sýnd verður kvikmyndin Víti í Vestmannaeyjum eftir samnefndri bók Gunnars Helgasonar.

Mánudagur 14. október

Gunnar Helgason heimsækir nemendur á miðstigi í tveimur grunnskólum fyrir hádegi. Hann les úr bókum sínum, ræðir við nemendur og hvetur til lestrar.

Kl. 16:30 Bókabíó á Bókasafni Hafnarfjarðar
Kvikmyndin The Spiderwick Chronicles verður sýnd í fjölnotasalnum. Myndin er með íslenskum texta og leyfð fyrir 7 ára og eldri.

Þriðjudagur 15. október

Gunnar Helgason heimsækir nemendur á miðstigi í tveimur grunnskólum fyrir hádegi. Hann les úr bókum sínum, ræðir við nemendur og hvetur til lestrar.

Kl. 17 Afhending menningarstyrkja í Hafnarborg
Menningar- og ferðamálanefnd veitir styrki til viðburða og menningarstarfsemi.

Miðvikudagur 16. október

Gunnar Helgason heimsækir nemendur á miðstigi í tveimur grunnskólum fyrir hádegi. Hann les úr bókum sínum, ræðir við nemendur og hvetur til lestrar.

Fimmtudagur 17. október

Gunnar Helgason heimsækir nemendur á miðstigi í tveimur grunnskólum fyrir hádegi. Hann les úr bókum sínum, ræðir við nemendur og hvetur til lestrar.

Kl. 17 Bókabingó! á Bókasafni Hafnarfjarðar
Við spilum bingó í fjölnotasal bókasafnsins. Aðgangur ókeypis og veglegir vinningar í boði fyrir heppna bingóspilara.

Föstudagur 18. október

Kl. 20 Marvel maraþon í Hamrinum
Hamarinn, ungmennahús Hafnarfjarðar, hefur ferðalag í gegnum Marvel kvikmyndaheiminn þar sem teiknimyndasögur hafa verið færðar í leiknar kvikmyndir.

Laugardagur 19. október

Kl. 13 Frumsýning á Mömmu klikk! í Gaflaraleikhúsinu

MAMMA KLIKK! er frábær fjölskyldusýning eftir stórskemmtilegri sögu Gunnars Helgasonar. Leikgerðin er unnin af Björk Jakobsdóttur bæjarlistamanni Hafnarfjarðar 2019 sem jafnframt er leikstjóri. Uppselt er á flestar sýningar í október og nóvember en fleiri sýningar komnar í sölu á gaflaraleikhusid.is

Kl. 14 Fjölskyldu-kapp-ratleikur á Bókasafni Hafnarfjarðar
Fjölskylduratleikur í anda Amazing Race þar sem fjölskyldur keppa um að vera fljótust til að leysa ratleiksþrautir á öllum deildum Bókasafnsins.

Sá hængurinn er á að fjölskyldur verða að taka þátt- tveggja manna til tíu!- og fjölskyldan sem vinnur verður bæði að ná öllu rétt og einnig hafa besta tímann til að grípa hnossið. Hægt er að skrá sitt lið fyrirfram á netfangið barnadeild@hafnarfjordur.is, eða samdægurs á staðnum.


Alla vikuna

Fjölbreytt dagskrá í leik- og grunnskólum

Á Bókasafni Hafnarfjarðar:

Útstilling: Útstillingar á bókum og bíómyndum gerðum eftir þeim í bókasafninu.

Fótboltaútstilling í glerskáp: Björgólfur Takefusa lánar bókasafninu muni sína í tengslum við fótboltabækur Gunnars Helgasonar, og mynd hans „Víti í Vestmannaeyjum“.

Samsköpunarhandrit: Gestir geta límt persónur, setningar og atburði saman til að mynda áhugaverða sögu sem verður síðan endurprentuð og birt í heild sinni á Facebook-síðu safnsins.