Alheimshreinsunardagur
Þann 15. september 2018 mun heimurinn sameinast í stærsta hreinsunarátaki sem jörðin hefur orðið vitni að: World Cleanup Day.
Ísland lætur sitt ekki eftir liggja og mun að sjálfsögðu taka þátt. Landvernd, Blái herinn, JCI, Plastlaus september, plokkarar og allir sem hafa áhuga á að búa í hreinum heimi, munu sameina krafta sína og hreinsa fjöll af rusli í tengslum við þennan alheimsviðburð.
Hafnfirðingar eru hvattir til að taka þátt, þennan dag eða einhvern annan dag í september ef það hentar betur. Á meðfylgjandi korti er hægt að sjá hvar hreinsun hefur verið skipulögð í Hafnarfirði og hér getur þú skráð þinn hóp til leiks.
Starfsfólk þjónustumiðstöðvarinnar verður á ferðinni eftir helgi og sækir úrgang sem safnast hefur. Vinsamlegast sendið okkur tölvupóst á hafnarfjordur@hafnarfjordur.is eða skilaboð á Facebook með nákvæmri staðsetningu. Á endurvinnslustöð Sorpu við Breiðhellu gefst íbúum einnig kostur á að koma með úrgang til endurvinnslu og/eða förgunar. Auk þess eiga öll heimili í Hafnarfirði að vera með grátunnu, sem tekur við almennu heimilissorpi, plasti í sérpoka og málmum eins og niðursuðudósum í lausu, og blátunnu, fyrir allan pappírs og pappaúrgang.