Menningar- og íþróttabærinnMenningar- og íþróttabærinn

Menningarbærinn

Í menningarlífi Hafnarfjarðar kennir margra grasa. Í Hafnarborg eru reglulegar listsýningar og á Byggðasafni Hafnarfjarðar er sögunni gerð góð skil. Hróður Hafnarfjarðarleikhússins hefur farið víða enda er það í framvarðarsveit íslenskra leikhúsa. Fornri menningu landnámsmanna og víkinga má kynnast í víkingaveislum Fjörukrárinnar og á víkingahátíðum.  Þá er lista- og menningarhátíðin Bjartir dagar haldin ár hvert í júnímánuði og á aðventunni heimsækja allir Jólaþorpið.  Ekki má heldur gleyma alþjóðlega Höggmyndagarðinum á Víðistaðatúni.

Tónlistarlíf er í miklum blóma en í Hafnarfirði starfa um 15 kórar fyrir utan skólakóra og í rokkinu er mikil gróska. 

Bæjarlistamaður Hafnarfjarðar. Hægt er að senda inn tilnefningar um bæjarlistamann til 1. febrúar ár hvert. Umsóknarform og framkvæmd eru auglýst sérstaklega. Útnefning á bæjarlistamanni fer fram síðasta vetrardag.

Viðburða- og verkefnastyrkir. Hafnarfjarðarbær auglýsir eftir umsóknum um styrki til verkefna og viðburða á sviði menningar og lista í Hafnarfirði til eflingar á hafnfirsku menningarlífi einu sinni á ári.  Auglýst er fyrir 15. febrúar ár hvert og miðað við að úthlutun sé lokið fyrir 1. maí. Úthlutunarreglur er að finna HÉR

Íþróttabærinn

Hafnarfjörður er mikill íþróttabær. Oft er sagt að bærinn sé vagga handboltans á Íslandi. Íþróttanámskeið hófust á vegum Íþróttafélags Hafnarfjarðar 1927. Fyrsti opinberi handboltaleikurinn á Íslandi fór fram á Hvaleyrarholtsvellinum 1925. Þar kepptu stúlknalið. Á fyrstu árum handknattleiksins voru það þó einkum piltar úr Flensborgarskóla sem stunduðu íþróttina og kepptu reglulega við nemendur úr Menntaskólanum í Reykjavík. Veturinn 1994-1995 voru í fyrsta sinn þrjú hafnfirsk félagslið í fyrstu deild í handboltanum.

Hafnfirskir íþróttamenn standa einnig mjög framarlega í frjálsum íþróttum, fimleikum, sundi, knattspyrnu, körfuknattleik og golfi. Hestaíþróttin er einnig vinsæl. Þá er starfræktur öflugur siglingaklúbbur í Hafnarfirði.


Var efnið hjálplegt? Nei