Brandarabærinn


Brandarabærinn

„Upp á hraun“

Áður fyrr var aðeins talað um tvær áttir í Hafnarfirði. Þeir sem bjuggu vestan Hamarskotslækjar voru kallaðir Vesturbæingar og Suðurbærinn var fyrir sunnan læk. Ef stefnan var tekin á svæðið norður af miðbænum var alltaf talað um að fara „upp á hraun”. Ný átt bættist í orðaforða Hafnfirðinga þegar Norðurbærinn tók að rísa um 1970, en gamlir og grónir Gaflarar voru lengi að sætta sig við þessa nýbreytni.

Enn eru höfuðáttirnar aðeins þrjár í Hafnarfirði, því engum heilvita Hafnfirðingi hefur dottið í hug að kalla Setbergshverfið „austurbæ” Hafnarfjarðar og Vallahverfið aldrei kallað annað en Vellirnir!

Brandarabærinn

Í flestum löndum mun víst tíðkast að henda gaman að íbúum einstakra héraða og bæja sem þykja á einhvern hátt skera sig úr. Af þessu spretta skondnar sögur um fólk sem ekki þykir stíga í vitið eða er á einhvern hátt sérkennilegt. Nú er svo komið fyrir Hafnfirðingum að athafnir þeirra og tilsvör virðast ætla að verða óþrjótandi nægtabrunnur gárunga og spéfugla um land allt. En auðvitað taka Hafnfirðingar þessu létt og hafa bara gaman af. Margir kunna reiðinnar ósköp af Hafnarfjarðarbröndurum og ekki er verra að hafa þá á takteinum þegar Vinir Hafnarfjarðar og aðrir góðir landsmenn hefja skothríðina!

Hér koma tvö dæmi:

  • Hvers vegna setja Hafnfirðingar alla stóla út á svalir þegar degi tekur að halla? Svar: Auðvitað til þess að sólin geti sest !
  • Hvers vegna er flóð og fjara í Hafnarfirði? Svar: Þegar Hafnfirðingar komu niður að sjónum í fyrsta sinn þá brá sjónum svo mikið að hann hörfaði hið snarasta. Núna kemur hann tvisvar á sólarhring til að athuga hvort þeir séu þarna ennþá !

Við hvetjum alla sem koma til bæjarins að læra nokkra Hafnarfjarðarbrandara svo þeir eigi auðveldara með að aðlagast okkar litríka samfélagi.


Var efnið hjálplegt? Nei