Árlegir viðburðirÁrlegir viðburðir

Áramótabrenna og Þrettándagleði á Ásvöllum

Hafnarfjarðarbær og Knattspyrnufélagið Haukar standa saman að áramótabrennu á íþróttasvæði Hauka á Ásvöllum á gamlárskvöld.

Á þrettándanum 6. janúar ár hvert eru jólin kvödd með dansi og söng á glæsilegri Þrettándagleði á Ásvöllum. Jólasveinn, Grýla, Leppalúði, álfar og púkar skemmta og hátíðinni lýkur með glæsilegri flugeldasýningu Björgunarsveitar Hafnarfjarðar.

Vetrarhátíð

Vetrarhátíð verður haldin dagana 3. – 6. febrúar 2022. Megintilgangurinn er að gefa íbúum höfuðborgarsvæðisins tækifæri til að njóta menningar, lista, íþrótta og útiveru í eigin sveitarfélagi og/eða heimsækja nágranna sína í nærliggjandi sveitarfélagi. Nánar um vetrarhátíð hér.

Bjartir dagar

Bjartir dagar er menningarhátíð sem endurspeglar allt það fjölbreytta menningarstarf sem á sér stað í Hafnarfirði sem stofnanir, félagasamtök, fyrirtæki og einstaklingar standa að. Bjartir dagar hefjast síðasta vetrardag á því að þriðjubekkingar syngja inn sumarið og menningar og ferðamálanefnd útnefnir bæjarlistamann Hafnarfjarðar. Vegna samkomutakmarkana 2021 gátu ekki öll verkefni farið fram á tilsettum tíma og því varverið ákveðið að lengja í hátíðartímabilinu og Bjartir dagar í Hafnarfirði fóru því fram í allt sumar. Kraftur og gróska í listalífinu í Hafnarfirði hefur meðal annars endurspeglast í viðburðinum Gakktu í bæinn. Þá opna listamenn, hönnuðir og handverksfólk vinnustofur sínar og bjóða gesti og gangandi velkomna í heimsókn.

Sumardagurinn fyrsti

Sumardagurinn fyrsti hefst á víðavangshlaupi Hafnarfjarðar í umsjón Frjálsíþróttadeildar FH. Að lokinni skátamessu í Víðistaðakirkju er haldið í skrúðgöngu á Thorsplan í miðbæ Hafnarfjarðar þar sem skátafélagið Hraunbúar sér um fjölbreytta fjölskyldudagskrá.

Sjómannadagurinn

Sjómannadagurinn hefur verið haldinn hátíðlegur í Hafnarfirði síðan 1953 enda tengist saga Hafnarfjarðar nær öll sjósókn og fiskvinnslu. Fjölbreytt dagskrá og heiðrun sjómanna fer fram við Flensborgarhöfn og Björgunarsveit Hafnarfjarðar setur upp fjölbreytt björgunarleiktæki á landi og í sjó. Þar sem samkomutakmarkanir eru enn í gildi verða hátíðarhöld við Flensborgarhöfn á Sjómannadaginn 6. júní 2021 enn með óhefðbundnum hætti. Þrátt fyrir það hvetjum við Hafnfirðinga og gesti þeirra til þess að gera sér ferð niður að höfn og njóta þess sem höfnin, sem bærinn er kenndur við, hefur upp á að bjóða.


Menningar- og heilsugöngur

Yfir sumarmánuðina er boðið upp á menningar- og heilsugöngur öll miðvikudagskvöld. Flestar göngur taka um klukkustund og hefjast kl. 20 nema annað sé tekið fram, þátttaka er ókeypis og allir velkomnir. Hér er hægt að skoða dagskrána sumarið 2021.

Víkingahátíð á Víðistaðatúni

Víkingafélagið Rimmugýgur stendur árlega fyrir Víkingahátíð á Víðistaðatúni. Áætlað er að halda hátíðina 15. - 19. júní 2022. Á hátíðinni fara fram bardagasýningar, leikjasýningar, sögumenn, bogfimi, handverk, markaður, víkingaskóli barna og veitingar til sölu. Víkingahátíð hefur verið haldin í Hafnarfirði í hartnær tvo áratugi en fyrsta hátíðin fór fram á Víðistaðatúni árið 1995.

Þjóðhátíðardagurinn 17. júní

Fjölbreytt hátíðar- og skemmtidagskrá á þjóðhátíðardaginn í Hafnarfirði teygir sig um allan miðbæinn og enginn ætti að láta Austurgötuhátíðina fram hjá sér fara. Þjóðhátíðardagur hefst í Hafnarfirði við fyrsta hanagal með fánahyllingu á Hamrinum. Að lokinni skrúðgöngu flytur fjallkona Hafnarfjarðar ljóð við setningu þjóðhátíðardagskrár og við tekur skemmtidagskrá víðs vegar um bæinn.

Bóka- og bíóhátíð

Bóka- og bíóhátíð barnanna í Hafnarfirði minnir á mikilvægi lestrar og bóka og tengsl þeirra við kvikmyndir. Stofnanir bæjarins standa fyrir viðburðum og fjölbreytt verkefni eru unnin í leik- og grunnskólum bæjarins.

Jólaþorpið

Jólaþorpið er opið alla laugardaga og sunnudaga á aðventunni frá kl. 13-18 og iðar af lífi og fjöri í kringum jólin. Litlu fagurlega skreyttu jólahúsin í Jólaþorpinu í Hafnarfirði eru orðin landsþekktur söluvettvangur fyrir ýmisskonar gjafavöru, handverk og hönnun sem tilvalið er að setja í jólapakkann.  Einnig eru á boðstólnum gómsætar veitingar til að borða á staðnum og  ljúfmeti til að taka með heim á veisluborðið. Vertu velkomin(n) í miðbæ Hafnarfjarðar í desember að njóta skemmtidagskrár á Thorsplani, kíkja í litlu jólahúsin og hver veit nema þú rekist á Grýlu eða jólasveinana á vappi um bæinn.


Var efnið hjálplegt? Nei