Útivist og náttúra


Útivist og náttúra

Hafnarfjörður er fallegur bær frá náttúrunnar hendi. Bærinn er byggður í skeifu fyrir botni fjarðarins en í gegnum bæinn rennur Hamarskotslækur til sjávar.

Landslag við Hafnarfjörð mótast af því að svæðið er við jaðar hins virka gosbeltis sem liggur um Reykjanesskaga og teygir sig norður í Langjökul. Einkennandi eru úfin kargahraun sem runnið hafa til sjávar og mynda grunn undir stórum hluta bæjarins og eru hans helsta einkenni. Upp úr hraunflákunum standa stakstæð fell sem eru áberandi kennileiti og má þar nefna Helgafell, Valahnjúka og Ásfjall, sem stendur næst byggðinni. Landslag er í heild fjölbreytilegt og í því finnast sérstæð náttúrufyrirbrigði og áhugaverðir staðir .

Útivistarsvæði eru fjölbreytt að gerð þannig að allir geta fundið vettvang til útivistar við sitt hæfi, s.s. leik og sparkvelli . Sex holu frisbígolfvöllur er á Víðistaðatúni. Frisbígolf er leikið á svipaðan hátt og venjulegt golf nema að í stað golfkylfa og golfbolta eru notaðir frisbídiskar og í stað golfhola eru sér útbúnar körfur settar upp. Áhugasamir geta leigt frisbídiska hjá Skátafélaginu Hraunbúum í Hraunbyrgi frá kl. 9-22 alla daga vikunnar. Íþróttin hentar öllum aldurshópum og er skemmtileg fyrir alla fjölskylduna. Frítt er á völlinn og ekki nauðsynlegt að bóka fyrirfram. Upplýsingaskilti um leikreglur og skipulag vallar á Víðistaðatúni er að finna á túni fyrir neðan Víðistaðakirkju. Hér má einnig sjá vallarkort fyrir völlinn. 

Óspillt náttúra Hafnarfjarðar hefur ótvírætt gildi fyrir núverandi og komandi kynslóðir. Hana ber að vernda til að íbúar fái notið hennar og nýtt til útivistar og fræðslu. Markvisst er unnið að því að auka virðingu fyrir náttúru og umhverfi, til hagsbóta fyrir náttúruna, bæjarfélagið og íbúa.

Hafnarfjörður á aðild að Reykjanesfólkvangi sem stofnaður var 1975. Mikið er um jarðhitasvæði og margskonar náttúruminjar innan fólkvangsins. Eldfjöll eru mörg, einkum lágar hraundyngjur og gossprungur. Móbergsfjöll og stapar í óteljandi myndum er einkennandi fyrir landslag á svæðinu.

Fjöldi göngu- og hjólaleiða liggja um Hafnarfjörð. Kort og nánari upplýsingar er að finna í Þjónustuveri, Strandgötu 6.


Var efnið hjálplegt? Nei