Andaðu að þér fersku sjávarlofti


Andaðu að þér fersku sjávarlofti

Það er tilvalið að heimsækja fjöruna við strandstíginn á Herjólfsgötu eða Hvaleyri.

Það er skemmtileg að fara í fjöruferð í næstum hvaða veðri sem er. Í fjörunni er gaman að fleyta kerlingar eða finna eitthvað forvitnilegt undir steinum. Þá er tilvalið að hafa með sér fötu til þess að safna í. Í Hafnarfirði eru nokkrir staðir þar sem auðvelt aðgengi er að fjöru, til dæmis hjá Hleinafólkvangi við strandstíginn á Herjólfsgötu eða Hvaleyri.

IMG_2704

Hleinafólkvangur

Hleinar voru friðlýstir sem fólkvangur árið 2009. Markmiðið með friðlýsingu svæðisins er að vernda fjöru og útivistarsvæði í fögru hraunumhverfi sem vaxið er náttúrulegum gróðri svo sem mosa- og lynggróðri. Jafnframt er það markmið friðlýsingarinnar að vernda búsetulandslag og menningarminjar, en á svæðinu eru tóftir, fiskreitir, grjóthleðslur, gerði, garðar og vagnslóðar.

Hvaleyri

Hrafna-Floki-a-Hvaleyri-6-

Víkingurinn Hrafna-Flóki kom hér að landi um 860 ásamt Þórólfi og Faxa hinum suðureyska sem Faxaós (Faxaflói) er kenndur við. Þegar Flóki ætlaði að halda aftur til Noregs eftir ársdvöl í Vatnsfirði lentu skip hans í óveðri og náðu ekki að sigla fyrir Reykjanes. Herjólfur varð viðskila við félaga sína og tók land í Herjólfshöfn. Flóki og menn hans voru um veturinn í Borgarfirði en freistuðu heimfarar næsta sumar. Komu þeir í Hafnarfjörð. Þeir fundu hval á eyri einni út frá firðinum og kölluðu hana Hvaleyri. Þar fundust þeir Herjólfur. Áður er Hrafna-Flóki fór að leita Garðarshólma (Íslands) hlóð hann vörðu við Smjörsund í Noregi og blótaði þrjá hrafna sem áttu að vísa honum veginn yfir hafið. Þótt sá leiðangur mistækist varð hann þó til að gefa Íslandi það nafn sem það hefur haldið síðan. Árið 1997 var samskonar varða hlaðin við Hvaleyri úr grjóti frá Smjörsundi til að minnast þessa atburðar.

 


Var efnið hjálplegt? Nei