Áhugaverðir staðir


Áhugaverðir staðir

Mikinn fjölda náttúrufyrirbrigða og áhugaverðra staða er að finna í landi Hafnarfjarðar.

Krýsuvík

Krýsuvík er ein fegursta náttúruperla Íslands og fjölbreytt litadýrð náttúrunnar á hverasvæðinu við Seltún hefur heillað marga listamenn. Stórbrotið landslag Krýsuvíkur er vel fallið til útivistar og náttúruskoðunar. Hér ber einna hæst sprengigíginn Grænavatn, leirhverina við Seltún og Kleifarvatn að ógleymdum Sveifluhálsi og síðast en ekki síst Krýsuvíkurbjargi, sem er eitt stærsta fuglabjarg landsins.

Margar gamlar gönguleiðir liggja frá Krýsuvík og hvarvetna blasir kynngikraftur náttúrunnar við augum. Höfuðskepnurnar eldur, vatn, loft og jörð hafa mótað umhverfið í aldanna rás. Gufustrókar stíga til himins, sjóðandi leirhveri má sjá í Seltúni og hverahvammar skarta grænum, gulum og rauðleitum litum sem skipta um svipmót eftir veðrinu.

Landslag í Krýsuvík er mótað af umbrotum og jarðeldum. Grænavatn, Gestsstaðavatn og Augun eru sprengigígar sem myndast hafa við sprengigos á ýmsum tímum. Grænavatn er stærst um 46 m djúpt. Vatnið fær lit sinn af hveraþörungum og kristöllum sem draga grænan lit sólarinnar í sig. Gestsstaðavatn heitir eftir fornu býli sem fór í eyði á miðöldum. Augun eru lítil gígvötn beggja vegna þjóðvegarins.

Seltun-4

Kleifarvatn

Kleifarvatn er 10 ferkílómetrar að flatarmáli og stærsta stöðuvatn á Reykjanesskaga. Það er á milli Sveifluháls í vestri og Vatnshlíðar í austri. Aðrennsli í vatnið er takmarkað og ekkert frárennsli er sjáanlegt ofanjarðar. Vatnsborðið fylgir grunnvatnsyfirborði svæðisins sem sveiflast um allt að 4 m á tugum ára. Félagar úr Stangveiðifélagi Hafnarfjarðar fluttu bleikjuseiði í Kleifarvatn um 1960 og dafnar fiskurinn bærilega í vatninu. Áður fyrr þóttust menn verða varir við kynjaveru líka stórum ormi í vatninu.


Hellisgerði

Hellisgerði er almenningsgarður og hraun prýðir hann allan. Það er tilvalið að fara þangað með teppi og nesti þegar veðrið er gott og leyfa börnum að skoða sig um að njóta í þessu fallega umhverfi. Árið 1924 hóf Málfundafélagið Magni markvissa ræktun í Hellisgerði en garðurinn er nú eigu Hafnarfjarðarbæjar. Í garðinum mun búa mikill fjöldi álfa og huldufólks. Á sumrin er þar rekið kaffi hús og lítil búð með handverki. 

Hellisgerdir-11

Hvaleyri

Víkingurinn Hrafna-Flóki kom hér að landi um 860 ásamt Þórólfi og Faxa hinum suðureyska sem Faxaós (Faxaflói) er kenndur við. Þegar Flóki ætlaði að halda aftur til Noregs eftir ársdvöl í Vatnsfirði lentu skip hans í óveðri og náðu ekki að sigla fyrir Reykjanes. Herjólfur varð viðskila við félaga sína og tók land í Herjólfshöfn. Flóki og menn hans voru um veturinn í Borgarfirði en freistuðu heimfarar næsta sumar. Komu þeir í Hafnarfjörð. Þeir fundu hval á eyri einni út frá firðinum og kölluðu hana Hvaleyri. Þar fundust þeir Herjólfur. Áður er Hrafna-Flóki fór að leita Garðarshólma (Íslands) hlóð hann vörðu við Smjörsund í Noregi og blótaði þrjá hrafna sem áttu að vísa honum veginn yfir hafið. Árið 1997 var samskonar varða hlaðin við Hvaleyri úr grjóti frá Smjörsundi til að minnast þessa atburðar.

Hvaleyrarvatn

Vatnið er skammt ofan við Hafnarfjörð í lítilli kvos sem er umlukin hæðardrögum á þrjá vegu, Vatnshlíð, Húshöfða og Selhöfða. Vestanvert við vatnið er Selhraun sem lokar fyrir afrennsli vatns úr kvosinni. Hér höfðu Hvaleyrarbændur í seli fyrr á öldum og sjást tóftir undir Selhöfða sem gætu verið af gömlu seli. Suðvestan höfðans er Seldalur í lokaðri kvos. Árið 1956 var Skógræktarfélagi Hafnarfjarðar afhent 32 ha land á Húshöfða norðaustan vatnsins til uppgræðslu. Síðan hefur félagið aukið ræktunarsvæði sitt til muna. Hér er kjöri útivistarsvæði og liggur göngustígur umhverfis vatnið auk margra gönguleiða í nágrenninu.

Hv-6

Dvergasteinn

Á grasflötinni milli Hafnarfjarðarkirkju og safnaðarheimilisins Strandbergs, Suðurgötumegin,  er steinn sem kallast Dvergasteinn. Þegar kirkjan var byggð árið 1914 fékk hann að standa óhaggaður. Stein þennan vill enginn hreyfa, því verði honum haggað munu hin huldu verndaröfl steinsins ekki láta þess óhengt. Stendur Dvergasteinn í skjóli kirkjunnar rétt neðan Hamarsins og lætur lítið yfir sér. Við þennan stein stóð húsið Dvergasteinn þar sem Emil Jónsson fyrrum bæjarstjóri og ráðherra fæddist og ólst upp.

Hamarinn

Áður fyrr var þessi mikli klettur sem stendur fyrir miðjum fjarðarbotninum nefndur Hamarskotshamar eftir koti sem stóð þar sem Flensborgarskólinn er nú. Hamarinn er hæstur austast og þar var hann stundum nefndur Austurhamar, en Vesturhamar þar sem hann gekk í sjó fram. Sprengt var efni  úr Vesturhamrinum 1941-1948 og notað í uppfyllingu norðurgarðs hafnarinnar. Ofan Hamarsins eru Öldurnar og niður af Austurhamri er Brekkan með Brekkugötu og Suðurgötu. Svæðið neðan Vesturhamars kallaðist fyrrum einu nafni Undirhamar. Í klöppunum ofan á Hamrinum sjást jökulrispur, menjar ísaldarjökulsins. Víðsýnt er af Hamrinum. Þar er útsýnisskífa og í góðu skyggni má sjá allan fjallahringinn umhverfis Faxaflóa. Í Hamrinum eru sagðar búa álfaverur af „konungakyni”. Hamarinn var friðlýstur sem náttúruvætti árið 1984.

IMG_0594_1603277648259

Hamarkotslækur

Lækurinn eða Hamarskotslækur eins og hann heitir á upptök sín í tveimur kvíslum. Önnur þeirra kallast Kaplakrikalækur og rennur úr Urriðakotsvatni með suðurbrún Garðahrauns um Kaplakrika, síðan með Reykjanesbrautinni í Setbergshverfi vestanverðu og kallast þá Setbergslækur. Hin kvíslin kemur upp í Lækjarbotnum syðst í Stekkjarhrauni, rennur til norðurs með hrauninu og sameinast Setbergslæk í Þverlæk neðan Setbergsskóla og kallast eftir það Hamarskotslækur. Hann rennur neðan Kinnahverfis, um Hörðuvelli og með Hamrinum í sjó fram. Lækurinn var stíflaður við Brekkuna undir Hamrinum þegar Jóhannes Reykdal trésmiður virkjaði hann til rafmagnsframleiðslu í 15 hús og reisti fyrstu rafstöðina á Íslandi til almenningsnota árið 1904. Síðar var Hörðuvallastíflan gerð ofar í læknum þar sem hús Frímúrarareglunnar stendur nú. Þar var stærri rafstöð byggð 1906 til að knýja trésmíðavélar Reykdals og lýsa upp húsin í bænum. Hörðuvallastöðin er talin elsta sjálfstæða rafmagnsstöðin á landinu. Við stífluna var einnig sett á laggirnar íshús sem nýtti ísinn á læknum áður en hraðfrystihúsin komu til sögunnar.

IMG_4447

Helgafell

Helgafell er 340 m hátt móbergsfjall skammt frá Kaldárseli suðaustan Hafnarfjarðar. Fellið er auðvelt uppgöngu að norðaustan þó það sé annars klettótt og bratt. Gott útsýni er af fjallinu yfir Reykjanesið norðanvert og út á Faxaflóa. Vestan við Helgafell er Gullkistugjá, litlu sunnar er óbrunninn grashóll. Skúlatún, um miðja vegu milli Helgafells og Lönguhlíða. Norðan þess eru Valahnúkar, en þrír steinrunnir Valir sitja efst á hnúkunum og fylgjast með öllum sem þar fara um.

Helgafell2020

Ásfjall

Ásfjall er nafn á hæð einni, 127 m,  skammt ofan Hafnarfjarðar. Útsýni er gott yfir Hafnarfjörð og nágrannabyggðirnar að ógleymdum fjallhringnum umhverfis Faxaflóa. Hringsjá er á toppi fjallsins sem vísar á helstu fjöll og kennileiti í nágrenninu. Til vesturs gengur Ásfjallsöxl fram úr fjallinu og endar í Grísanesi. Sunnan Ásfjalls liggur Bleikisteinsháls til vesturs og allt að Hamranesi. Austan við Ásfjall er Ásland og vestan þess liggur Ástjörn.

Ástjörn

Ástjörn er vogskorin uppistöðutjörn sem myndast hefur í kvos vestan undir Ásfjalli þegar Hellnahraun renn fyrir um 2000 árum og stíflaði afrennsli hennar til sjávar. Í tjörnina renna nokkrir smálækir og er yfirborðsrennslið breytilegt sem hefur þó lítil áhrif á vatnsborðið. Lífríki tjarnarinnar er fjölbreytilegt og hér er kjörlendi margra fuglategunda því fæðuframboð í tjörninni er mikið. Sést hafa 44 tegundir fugla við tjörnina og ber mest á andfuglum, en mesta athygli verkur flórgoðinn. Ástjörn er að líkindum síðasti varpstaður flórgoðans á suðvestanverðu landinu. Tjörnin og nánasta umhverfi nýtur friðlýsingar vegna fjölskrúðugs fuglalífs og lífríkis. Þar sem Ásbærinn gamli stóð áður er nú trjáreitur frá því þar var skógræktarstöð og liggur göngustígurinn umhverfis vatnið þar í gegn. Skammt vestan bæjarstæðisins milli Ásfjallsaxlar og Grísaness er Hádegiskarðið sem ferðalangar gengu um fyrrum er þeir fóru Stórhöfðastíg og Hrauntungustíg til Krýsuvíkur eða Grindavíkur. Við norðvesturenda Ástjarnar eru Ásvellir, athafnasvæði íþróttafélagsins Hauka. Fólksvangurinn Ásfjall og umhverfi Ástjarnar var opnaður 10. maí 1997.

Straumur

Straumur dregur líklega nafn sitt af sjávarstraumum við Straumshólma eða af neðanjarðarfljóti því sem rennur hér til sjávar frá Kaldárbotnum. Sjávarfalla gætir í ferskvatnstjörnunum í hrauninu sem eru einstök náttúrufyrirbæri. Svæðið umhverfis Straum kallast Hraun. Það voru um 12 býli og kot um síðustu aldamót sem eru öll farin í eyði. Straumshúsið var byggt um 1927 af Bjarna Bjarnasyni skólastjóra sem rak þar búskap. Guðjón Samúelsson húsameistari ríkisins teiknaði húsið. Straumur hefur verið lögbýli frá fornu fari og var kóngsjörð um aldir. Árið 1948 keypti Hafnarfjarðarbær hluta Straumsjarðarinnar en sjálft Straumsbúið 1986. Árið 2018 var Straumur seldur og er nú í einkaeigu.

Heilög Barbara

Í svonefndu Kapelluhrauni á lágum hraunhól gegnt álverinu við Straumsvík er hlaðið steinbyrgi sem lítið ber á. Þetta eru leifar kaþólskrar kapellu frá miðöldum og hafa þær verið friðlýstar sem fornminjar. Við uppgröft 1950 fannst hér líkneski heilagrar Barböru, sem m.a. er verndardýrlingur ferðamanna og málmsmiða. Líkneski er varðveitt á Þjóðminjasafninu, en afsteypa þess í stækkaðri mynd er í kapellunni.

Gufuketilinn úr Coot

Togarinn Coot  frá Aberdeen var keyptur til Hafnarfjarðar árið 1905 og var fyrsti togarinn sem gerður var út af Íslendingum. Útgerð Coot endaði snögglega þegar hann strandaði við Keilisnes á Reykjanesi árið 1908.  Ketillinn stendur við veitingastaðinn Gamla vínhúsið og Byggðasafn Hafnarfjarðar við Vesturgötu.

Gamla bárujárnshúsabyggðin

Hafnarfjörður státar af stærstu samfelldu byggð bárujárnsklæddra timburhúsa á landinu. Er talsvert eftir af hinu upphaflega byggðamynstri bæjarins þar sem hús voru byggð á heppilegum stöðum í hrauninu en götur lagðar síðar.   Tilvalið rölta um Vesturbæinn, heimsækja Austurgötuna og Hverfisgötu svo einhverjar séu nefndar.

Vitinn

Vitinn við Vitastíg var byggður um 1900 uppá háhrauninu eins og það var kallað og var hann innsiglingaljós sem lýsti sjómönnum til 1979 er hann var lagður niður.  Vitinn var hækkaður allmikið 1913 þar sem Fríkirkjan sem þá var nýbyggð skyggði á hann svo ljósið frá honum sást illa. Það er vel við hæfi að bær með mikla sögu tengda sjómennsku hafi vita sem táknmynd.  

Klaustrið

Upphaf klaustursstarfs í Hafnarfirði má rekja til ársins 1929 en árið 1939 komu Karmelsystur frá Hollandi til að stofna nunnuklaustur í Hafnarfirði þar sem reglan hafði fengið land undir klaustrið þar sem nú heitir Öldurslóð 13 og hafið byggingu þess. Hollensku nunnurnar ráku síðan klaustur fram til ársins 1983 er þær síðustu yfirgáfu landið. Tæpu ári síðar kom þær pólsku nunnur sem nú eru í klaustrinu. Í kapellu klaustursins eru daglegar messur auk þess sem nunnurnar taka á móti óskum um fyrirbænir.

Víðistaðatún

Víðistaðatún er stórt opið svæði við Víðistaðakirkju og skátaheimili Hraunbúa. Þar er starfrækt tjaldsvæði frá miðjum maí fram í enda ágúst. Svæðið státar af fjölmörgum listaverkum sem tilvalið er að skoða og börn hafa gaman af að leika sér í. Einnig er það fyrirtaks grillhús sem almenningur getur notað. Einnig er þar aparóla, ærslabelgur og kastali sem staðsettur er í nálægð við grillhúsið. Hann hentar fyrir bæði leik- og grunnskólaaldur. Einnig er þar skógarlundur sem börn hafa gaman af að leika sér í sem og eini tennisvöllur Hafnfirðinga. Á svæðinu er stórt viðburðatún þar sem fjölmargar uppákomur eru haldnar árlega. Þar má nefna sýningar Hundaræktendafélags Íslands og Víkingahátíðina auk þess sem Krikketfélag Íslands er með reglubundnar æfingar á svæðinu yfir sumartímann. Víðistaðatún býður upp á fjölmarga afþreyingu fyrir allan aldur. Var efnið hjálplegt? Nei