Lög ungmennaráðs


Lög ungmennaráðs

1 Almenn ákvæði

1.1 Nafn ráðsins er Ungmennaráð Hafnarfjarðar, skammstafað U.M.H., heimili þess og varnarþing er á Strandgötu 6 í Hafnarfirði.
1.2 Fulltrúar í U.M.H. geta orðið einstaklingar með lögheimili í Hafnarfirði sem eru á aldrinum 13 - 17 ára árið sem kosið er.
1.3 U.M.H. skal hafa umboð til athafna frá ungu fólki í Hafnarfirði.
1.4 Markmið U.M.H. er að veita þeim sem eru yngri en 18 ára fræðslu og þjálfun í lýðræðislegum vinnubrögðum og að skapa vettvang og leiðir til þess að gera þeim sem eru yngri en 18 ára kleift að koma skoðunum sínum á framfæri við viðeigandi aðila.

2 Val á fulltrúum

2.1 Í U.M.H. eiga 21 fulltrúi sæti. 2 úr hverjum grunnskóla í Hafnarfirði, 3 úr hverjum framhaldsskóla í Hafnarfirði og 3 fulltrúar valdir í gegnum Gamla Bókasafnið og mega þeir ekki vera nemendur í grunnskóla eða framhaldsskólum í Hafnarfirði. Verði breyting á fjölda skóla í Hafnarfirði, fjölgar eða fækkar fulltrúum í U.M.H. til samræmis við það.
2.2 Fulltrúar í U.M.H. skulu valdir af lýðræðislega kjörnum nemendaráðum skólanna. Nemendaráðunum er þar með í sjálfsvald sett hvernig þau haga því vali. Jafnrétti kynja skal haft að leiðarljósi þegar fulltrúar eru valdir.
2.3 Fulltrúar í U.M.H. skulu valdir fyrir 15. september að hausti ár hvert og sitja þar til nýjir fulltrúar eru valdir að ári.
2.4 Nú segir fulltrúi í U.M.H. af sér eða hættir af öðrum orsökum og skal þá nemendaráð viðkomandi skóla velja nýjan fulltrúa í hans stað sem situr út kjörtímabilið. Sama gildir ef lögheimili fulltrúa í U.M.H. flyst úr Hafnarfirði.
2.5 Hver fulltrúi getur í mesta lagi setið í þrjú ár í röð.

3 Starfsreglur ráðsins

3.1 U.M.H. fundar á þriðjudögum á tveggja vikna fresti í húsnæði sem Hafnarfjarðarbær lætur í té. Starfsmenn ráðsins boða til fyrsta fundar og á honum skal ákveða fundartíma.
3.2 Fundarstjórn og undirbúningur funda skiptist á milli meðlima ráðsins og því er ekki kosinn eiginlegur formaður. Á fyrsta fundi hvers kjörtímabils skal sú verkaskipting ákveðin.
3.3 Starfsmenn ráðsins skulu tilnefndir af æskulýðsfulltrúa Hafnarfjarðarbæjar. Þeir taka ekki frumkvæði, nema ef brýna nauðsyn krefur. Starfsmenn ráðsins starfa fyrst og fremst sem ráðgjafar og mega því ekki hafa áhrif á starfsemi þess. Þeir rita einnig fundargerð ráðsins og aðstoða við að koma samþykktum þess áleiðis.
3.4 U.M.H. getur fellt niður fjóra fundi yfir sumartímann og jafnmarga fundi yfir vetrartímann við sérstakar aðstæður.
3.5 U.M.H. skal leitast við að halda fund með bæjarstjóra Hafnarfjarðar að hausti og bæjarstjórn Hafnarfjarðar að vori ár hvert.
3.6 Fundir ráðsins skulu fylgja almennum reglum um fundarsköp.

4 Hvernig má endurskoða lögin

4.1 Nú samþykkir ungmennaráð breytingar á lögum þessum. Þá er kosið aftur samkvæmt óbreyttum lögum og þarf þá nýtt ungmennaráð að samþykkja breytingarnar til að þær öðlist gildi.

5 Ákvæði til bráðabirgða

5.1 Fyrsta ungmennaráð Hafnarfjarðar verður valið í mars 2005 og starfar fram á haust sama ár. Samkvæmt lögum U.M.H. skal valið miðast við haustið 2004.

Hafnarfirði 4. nóvember 2011


Var efnið hjálplegt? Nei