Ungmennahús


Ungmennahús

Í ungmennahúsi er boðið upp á uppbyggilegt tómstundastarf fyrir 13 - 25 ára ungmenni

Í Hafnarfirði eru starfrækt tvö ungmennahús. Annarsvegar Hamarinn með starfsemi fyrir 16 - 25 ára og hinsvegar Músík og Mótor með starfsemi fyrir 13 - 25 ára. Innri starfsemi húsanna er frábrugðin hvor annarri en hefur sömu gildi og byggir á þeim forsendum að ungmennin séu drifkraftur í starfinu. Verkefnastjóri /umsjónarmaður starfa á báðum stöðum og halda utan um daglegan rekstur og faglegt starf.

Hlutverk ungmennahúsanna í Hafnarfirði

Ungmennahúsin gegna mismunandi hlutverki í tómstundastarfi hafnfirskra ungmenna en hafa sameiginleg markmið um að stuðla að menningu og bættri þjónustu við ungmennin í gegnum þau verkefni sem þau taka þátt í. Hlutverk ungmennahúsanna er tvíþætt, annarsvegar að bjóða ungmennum upp á tómstundir sem hafa forvarnar-, uppeldis- og menntunargildi og tekur mið af aldri þeirra og þroska. Hins vegar er hlutverk þeirra að bjóða upp á aðstöðu til afþreyingar og samveru með jafnöldrum í öruggu umhverfi. Áhersla er lögð á fjölbreytileikann og að allir upplifi sig velkomna. 

Starfsemi ungmennahúsanna í Hafnarfirði

Unnið er í klúbbum, ráðum, sértæku hópastarfi, opnu starfi og tímabundnum verkefnum. Áhersla er lögð á að virkja ungmenni til virkrar þátttöku og framkvæmda í starfinu, einkum þau sem þurfa sérstaka hvatningu og stuðning. Ungmennahúsin vinna að heilsueflingu ungmenna með forvörnum og óformlegu námi. Óformlegt nám er t.d. ýmislegt sem lærist við dagleg störf, á vettvangi fjölskyldunnar eða í frístundastarfsemi. Þá er lögð áhersla á að stuðla að lýðræðislegum vinnubrögðum og eflingu á sjálfstrausti og félagsfærni ungmenna, þar sem jafnréttissjónarmið eru ávallt höfð að leiðarljósi.

Samstarf við alla viðeigandi aðila

Mikilvæg leið að settum markmiðum er samstarf við félög, stofnanir, foreldra og aðra sem koma að fræðslu og/eða þjónustu við hafnfirsk ungmenni. Ungmennahúsin leita eftir samstarfi við þá aðila og vinna sameiginlega að málefnum ungmenna í sveitarfélaginu.  

Opnunartími

Opnunartími Ungmennahúsanna er breytilegur og miðar að því að mæta þörfum ungmennanna sem þau þjónusta. Nánari upplýsingar um opnunartíma er að finna á undirsíðum ungmennahúsanna á vef Hafnarfjarðarbæjar


Var efnið hjálplegt? Nei