Stoðþjónusta í leikskóla
Margs konar stoðþjónusta er fyrir hendi í leikskólum s.s. sérkennsla, snemmtæk íhlutun, greiningar, ráðgjöf og námskeið.
Sérkennsla
Markmið með sérkennslu í leikskólum er að tryggja að börn fái notið leikskóladvalar sinnar og fái fjölbreytilega kennslu sem taki mið af þörfum viðkomandi barns. Leikskólar bera ábyrgð á að börn sem þess þurfa hljóti sérkennslu.
Í hverju leikskóla starfar sérkennslustjóri sem er faglegur umsjónarmaður sérkennslu skólans. Sérkennslu- og kennsluráðgjafar starfa sem tengiliðir barna.
Í einhverjum tilvikum getur barn þurft að sækja stuðning utan leikskóla, til dæmis iðjuþjálfun, sjúkraþjálfun eða talþjálfun. Umsækjendur senda beiðni deildarstjóra greiningar- og ráðgjafadeildar. Sjá einnig BRÚNA.
Sálfræðiþjónusta
Sálfræðingar leikskóla gera athuganir á leikskólabörnum og veita starfsfólki leikskóla og foreldrum ráðgjöf. Beiðnir um sálfræðiþjónustu þurfa að berast til sérkennslustjóra leikskóla á þar til gerðu eyðublaði, sem útfyllt er í samstarfi foreldra og leikskóla. Samþykki foreldra fyrir beiðni þarf ætíð að liggja fyrir.
Talmeinaþjónusta
Talmeinafræðingar gera athuganir á leikskólabörnum og veita starfsfólki leikskóla og foreldrum ráðgjöf. Beiðnir um athugun talmeinafræðings þurfa að berast til sérkennslustjóra leikskóla á þar til gerðu eyðublaði, sem útfyllt er í samstarfi foreldra og leikskóla. Samþykki foreldra fyrir beiðni þarf ætíð að liggja fyrir.
Uppeldi - PMTO foreldrafærni og SMT skólafærni
PMTO stendur fyrir Parent Management Training – Oregon aðferð, og er aðferð fyrir foreldra og aðra sem koma að uppeldi. PMTO er gagnreynd aðferð sem dregur úr hegðunarerfiðleikum barna og unglinga og eflir foreldra í hlutverki sínu. Fjölbreytt úrræði, námskeið og ráðgjöf er í boði fyrir foreldra.
SMT-skólafærni er hliðstæð aðferð og PMTO þar sem lögð er áhersla á að koma í veg fyrir og draga úr hegðunarvanda.