Skráning í leikskólaSkráning í leikskóla

Sækja má um leikskólavist fyrir barn um leið og kennitala þess hefur verið skráð í þjóðskrá.  

Hægt er að sækja um fleiri en einn leikskóla. Mögulegt er að kaupa daglegan dvalartíma í leikskóla frá fjórum til níu klukkutímum en þá ávallt á sama tíma alla vikudaga innan opnunartíma leikskólans.

Allir foreldrar/forráðamenn, óháð búsetu, hafa rétt til að sækja um leikskólavist í leikskólum Hafnarfjarðar í gegnum mínar síður, en lögheimilisflutningur verður að hafa átt sér stað við upphaf leikskóladvalar. Börn geta hafið leikskólagöngu allt niður í 15 mánaða aldur við aðal innritun, fer eftir fæðingarmánuði barnsins.Undantekning frá þessari reglu eru börn sem falla undir skilgreiningu um forgang. Forsenda þess að barnið geti byrjað í leikskóla í Hafnarfirði er að það eigi lögheimili í Hafnarfirði.

Hafnarfjarðarbær áskilur sér rétt til að innrita börn í leikskóla eftir aldri (lög um leikskóla nr. 90/2008, 26. gr.). Aðalúthlutun leikskólavistar fer fram að vori ár hvert vegna leikskólarýma sem losna þegar börn hætta vegna aldurs. Einnig er innritað í febrúar eftir því sem pláss leyfa. Aðrar úthlutanir fara fram jöfnum höndum allt skólaárið, þegar leikskólarými losna vegna flutninga eða annarra ástæðna.

Foreldrar fá tilkynningar um leikskólavist sendar í rafpósti.

Þegar barni hefur verið úthlutað leikskólarými fær foreldri/ forsjáraðili bréf í tölvupósti þar sem farið er fram á að boðið um leikskólavistina sé staðfest hjá leikskólastjóra. Ef foreldri/ forsjáraðili hefur ekki staðfest tilboðið um leikskólavistina með tölvupósti eða símtali við leikskólastjóra innan 10 virkra daga frá því að tilkynningin var send út, er litið svo á að leikskólavistinni sé hafnað. Innritun er alfarið í höndum leikskólastjóra þar sem aðstæður í hverjum leikskóla fyrir sig ráða því hvenær leikskólaganga getur hafist. Þegar tilboð um leikskólavist er staðfest kynnir leikskólastjóri foreldri/ forsjáraðila ferli innritunar í leikskólann. Þróunarfulltrúi leikskóla er ábyrgðarmaður úthlutunar leikskólavistar.

Forgangur í leikskóla

Hafnarfjarðarbær áskilur sér rétt til að forgangsraða börnum í leikskóla þegar taka þarf tillit til aðstæðna barna og foreldra og eða til aðstæðna í leikskólum sveitarfélagsins (Lög um leikskóla nr. 90/2008, IX. kafli 26. gr.). Til að barn geti fallið undir skilgreiningu um forgang þarf að skila vottorði frá viðurkenndum greiningaraðilum:

  • Vegna fatlaðra barna (vottorð frá viðurkenndum greiningaraðila skal fylgja umsókn).
  • Vegna barna með þroskafrávik (vottorð frá viðurkenndum greiningaraðila skal fylgja umsókn).
  • Vegna barna sem búa við erfiðleika í félagsumhverfi – barnaverndarmál (vottorð frá félagsmála-yfirvöldum skal fylgja umsókn).
  • Vegna alvarlegra veikinda eða fötlunar innan fjölskyldu barnsins (vottorð frá lækni eða öðrum opinberum aðilum skal fylgja umsókn).


Annar forgangur:

  • Börn foreldra undir lögaldri (18 ára).
  • Þríburar.
  • Börn starfsmanna í leikskólum Hafnarfjarðar.

Umsókn um leikskóla


Var efnið hjálplegt? Nei