Skráning í leikskóla


Skráning í leikskóla

Allir foreldrar/forráðamenn, óháð búsetu, hafa rétt til að sækja um leikskólavist í leikskólum Hafnarfjarðar.

Umsókn er send í gegnum Mínar síður en börn verða að eiga lögheimili í Hafnarfirði þegar leikskólavist hefst. Börn geta hafið leikskólagöngu allt niður í 15 mánaða aldur við aðalinnritun en það fer eftir fæðingarmánuði barnsins. Undantekning frá þessari reglu eru börn sem falla undir skilgreiningu um forgang.

Sækja má um leikskólavist fyrir barn um leið og kennitala þess hefur verið skráð í þjóðskrá (það flýtir þó ekki fyrir inngöngu).

Hægt er að sækja um fleiri en einn leikskóla. Foreldrar og forráðamenn eru hvattir til þess að skoða þá leikskóla sem eru í boði, hafa samband við viðeigandi leikskólastjóra, fá að koma í heimsókn og kynna sér starfið. Mögulegt er að kaupa daglegan dvalartíma í leikskóla allt frá fjórum klukkustundum og upp í átta og hálfa en þá ávallt á sama tíma alla vikudaga innan opnunartíma leikskólans.

Hafnarfjarðarbær áskilur sér rétt til að innrita börn í leikskóla eftir aldri. Aðalúthlutun leikskólavistar fer fram að vori ár hvert vegna leikskólarýma sem losna þegar elsti árgangur byrjar í grunnskóla. Einnig er innritað í febrúar eftir því sem pláss leyfa. Aðrar úthlutanir fara fram jöfnum höndum allt skólaárið, þegar leikskólarými losna vegna flutninga eða annarra ástæðna.

Þegar barni hefur verið úthlutað leikskólarými fær foreldri/forsjáraðili bréf í tölvupósti þar sem farið er fram á að boðið um leikskólavistina sé staðfest hjá leikskólastjóra. Ef foreldri/ forsjáraðili hefur ekki staðfest tilboðið um leikskólavistina með tölvupósti eða símtali við leikskólastjóra innan 10 virkra daga frá því að tilkynningin var send út, er litið svo á að leikskólavistinni sé hafnað. Innritun er alfarið í höndum leikskólastjóra þar sem aðstæður í hverjum leikskóla fyrir sig ráða því hvenær leikskólaganga getur hafist. Þegar tilboð um leikskólavist er staðfest kynnir leikskólastjóri foreldri/forsjáraðila ferli innritunar í leikskólann.

Forgangur í leikskóla

Hafnarfjarðarbær áskilur sér rétt til að forgangsraða börnum í leikskóla þegar taka þarf tillit til aðstæðna barna og foreldra og eða til aðstæðna í leikskólum sveitarfélagsins. Til að barn geti fallið undir skilgreiningu um forgang þarf að skila vottorði frá viðurkenndum greiningaraðilum:

  • Vegna fatlaðra barna (vottorð frá viðurkenndum greiningaraðila skal fylgja umsókn).
  • Vegna barna með þroskafrávik (vottorð frá viðurkenndum greiningaraðila skal fylgja umsókn).
  • Vegna barna sem búa við erfiðleika í félagsumhverfi – barnaverndarmál (vottorð frá félagsmálayfirvöldum skal fylgja umsókn).
  • Vegna alvarlegra veikinda eða fötlunar innan fjölskyldu barnsins (vottorð frá lækni eða öðrum opinberum aðilum skal fylgja umsókn).


Annar forgangur:

  • Börn foreldra undir lögaldri (18 ára).
  • Þríburar.
  • Börn starfsmanna í leikskólum Hafnarfjarðar.

Umsókn um leikskóla


Var efnið hjálplegt? Nei