SérfræðiþjónustaSérfræðiþjónusta

Markmið sérfræðiþjónustu er að veita börnum og foreldrum þeirra stuðning annars vegar og starfsemi leikskóla og starfsfólki hins vegar. 

Sérfræðiþjónustan skal beinast að því að efla skóla sem faglegar stofnanir sem geti leyst flest þau viðfangsefni sem upp koma í skólastarfi og veita starfsfólki leiðbeiningar og aðstoð við störf sín eftir því sem við á samkvæmt ákvæðum reglugerðar nr. 584/2010 um sérfræðiþjónustu sveitarfélaga og fleiri reglugerðum sem tengjast lögum um leikskóla frá árinu 2008. Frá hendi sérfræðiþjónustu sveitarfélags fyrir leikskóla er þróunarfulltrúi sérstakur tengiliður á Skólaskrifstofu.

Forvarnir

Forvarnir eru viðfangsefni sem nauðsynleg eru til að vernda börn gegn ógn og hættum af öllu tagi. Í leikskólum fer fram margvísleg fræðsla og áætlanagerð um forvarnir. Nánari upplýsingar um slíkt má fá hjá hverjum leikskóla, t.d. í skólanámskrám, starfsáætlunum og á heimasíðum. Sérstakur samstarfsaðili í forvörnum í skólakerfinu er forvarnafulltrúi Hafnarfjarðar.

Sérkennsla

Sérkennsla í leikskólum byggir á lögum um leikskóla frá 2008, reglugerð um sérfræðiþjónustu í leikskólum nr. 584/2010 og starfsreglur Skólaskrifstofu. Markmið með sérkennslu í leikskólum er að tryggja að börn fái notið leikskóladvalar sinnar og fái fjölbreytilega kennslu sem taki mið af þörfum viðkomandi barns.

Málefni sérkennslu heyra undir Björk Alfreðsdóttur, sérkennslufulltrúa (bjorkalf@hafnarfjordur.is) og málefni barna af 1. og 2. fötlunarflokki og barna af erlendum uppruna heyra undir Hönnu H. Leifsdóttur, sérkennsluráðgjafa (hannal@hafnarfjordur.is).  Skólaskrifstofan úthlutar fjármagni til sérkennslu skólanna eftir mati á þörfum. Leikskólar bera ábyrgð á allri sérkennslu og íslenskukennslu.

Sérfræðiþjónustan úthlutar sérkennslutímum til skóla en hver leikskóli skipuleggur íhlutunina. Við skipulagningu á kennslu og/eða þjálfun er ávallt unnið í nánu samráði við forráðamenn/foreldra og sérfræðiþjónustu leikskóla. Í hverju leikskóla starfar sérkennslustjóri sem er faglegur umsjónarmaður sérkennslu. Tengiliðir vegna barna sem njóta sérkennslu eru sérkennslu- og kennsluráðgjafar Skólaskrifstofu Hafnarfjarðar sem sjá um eftirfylgd og leggja mat á árangri sérkennslu.

Í einhverjum tilvikum getur barn þurft að sækja stuðning utan leikskóla, til dæmis iðjuþjálfun, sjúkraþjálfun eða talþjálfun

Sálfræðiþjónusta

Sálfræðingar leikskóla gera athuganir á leikskólabörnum og veita starfsfólk leikskóla og foreldrum ráðgjöf. Beiðnir um sálfræðiþjónustu þurfa að berast á þar til gerðum eyðublöðum, sem útfyllt eru í samstarfi foreldra og starfsfólk leikskólans. Samþykki foreldra fyrir beiðni þarf ætíð að liggja fyrir. Tengiliður sálfræðiþjónustu er yfirsálfræðingur leikskóla á Skólaskrifstofu Hafnarfjarðar.

Talmeinaþjónusta

Börn í leikskóla með málþroskafrávik og/eða hljóðkerfisröskun er veitt sérkennsla samanber lög um leikskóla frá 2008 og reglugerð um sérfræðiþjónustu í leikskólum nr. 584/2010. Mat á þörf fyrir sérkennslu vegna málþroskafrávika eru gerð á grundvelli athugana og/eða mats talmeinafræðings að beiðni stjórnenda leikskóla með samþykki foreldris/ forráðamanns. Sérfræðiþjónusta leikskóla úthlutar sérkennslutímum til talmeinaþjónustu/málörvunar, en hver leikskóli skipuleggur og ákveður framkvæmd málörvunar við einstök börn í samráði við talmeinafræðing. Eftirfylgd og mat á árangri sérkennslu fyrir börn með málþroskafrávik er í höndum sérfræðiþjónustu leikskóla. Ráðgjöf og eftirfylgd um kennslu barna með málþroskaraskanir er veitt til starfsmanna leikskóla og foreldra leikskólabarna af talmeinafræðingi. Tengiliður vegna barna, sem eiga í erfiðleikum með mál, tal eða boðskipti, er talmeinafræðingur á Skólaskrifstofu Hafnarfjarðar.

Áhersla í allri vinnu varðandi börn með málþroskafrávik er að vinna í anda snemmtækrar íhlutunar, þ.e.a.s að byrja íhlutun um leið og grunur vaknar um að barn sé á eftir jafnöldrum í málþroska. Fyrstu vísbendingar um frávik eru oft staðfest í 2 ½ árs skoðun á heilsugæslu. Viðkomandi heilsugæslulæknir sendir bréf í kjölfarið til Skólaskrifstofu Hafnarfjarðar ef fram koma frávik á þroskamati. Í kjölfarið fara af stað viðurkenndir verkferlar með viðeigandi athugunum, vali á málörvunarefni, einstaklingsáætlun og viðtölum við foreldra. Unnið er í samráði við talmeinfræðing og sérfræðiþjónustu leikskóla.

Uppeldi - PMTO foreldrafærni og SMT skólafærni

PMTO stendur fyrir Parent Management Training – Oregon aðferð, og er aðferð fyrir foreldra og aðra sem koma að uppeldi. PMTO er sannprófað meðferðarprógramm sem dregur úr hegðunarerfiðleikum barna og unglinga og eflir uppalendur í hlutverki sínu. Fjölbreytt úrræði, námskeið og ráðgjöf er í boði fyrir foreldra og forsjáraðila og auk þess hefur aðferðin verið innleidd í alla grunnskóla Hafnarfjarðar og átta leikskóla undir formerkjum SMT – School Managment Training. SMT-skólafærni er hliðstæð aðferð og PMTO þar sem lögð er áhersla á að koma í veg fyrir og draga úr hegðunarvanda með því m.a. að kenna og þjálfa félagsfærni, hvetja æskilega hegðun og samræma viðbrögð alls starfsfólks gagnvart nemendum sem sýna óæskilega hegðun. 

Fagfólk með sérfræðiþekkingu á aðferðum PMTO starfar bæði á skrifstofu fræðslu- og frístundaþjónustu og á skrifstofu fjölskylduþjónustu.

Fyrirspurnir berist til: elisai@hafnarfjordur.is

 

Aðgangur foreldra að upplýsingum í vörslu sérfræðiþjónustu

Foreldrar geta kynnt sér gögn eða fengi afrit af gögnum í vörslu sérfræðiþjónustu með persónulegum upplýsingum um eigin börn. Leikskólar og sérfræðiþjónusta sveitarfélagsins skal fara með allar slíkar upplýsingar í samræmi við gildandi lög um persónuvernd. Um miðlun upplýsinga milli skólastiga og skóla innan sama skólastigs fer samkvæmt reglugerðum við 16. gr. laga um leikskóla og 18. gr. laga um grunnskóla. Um rétt foreldra til upplýsinga sem ekki fara með forsjá barns  er samkvæmt fyrirmælum 52. gr. barnalaga nr. 76/2003.


Var efnið hjálplegt? Nei