Bjarkalundur
Bjarkarvellir 3
Sími: 555 4941 | Netfang: bjarkalundur@hafnarfjordur.is | Vefsíða
Leikskólinn Bjarkalundur er staðsettur í Vallarhverfinu og tók leikskólinn
til starfa 8. ágúst 2016. Leikskólinn er fjögurra deilda leikskóli þar sem 85
börn geta dvalið samtímis og starfsmenn geta verið allt að 30
talsins. Leikskólinn starfar samkvæmt lögum um leikskóla frá árinu
2008. Hann er rekinn af Hafnarfjarðarbæ og hefur Skólaskrifstofa
Hafnarfjarðar eftirlit með fag- og rekstrarlegum þáttum starfsins.
Leikurinn er mikilvægur þáttur í námi og starfi skólans en fléttast stöðvavinna, flæði og samvinna inn í leikinn og áhersla er á skapandi starf. Markvisst er unnið með málörvun, læsi, stærðfræði og vísindi, sem samtvinnast leiknum. Leikskólinn er nálægt stórbrotinni náttúru og verður umhverfismennt einn af lykilþáttum skólans.
Leikskólinn lítur til starfsaðferða Reggio Emilia, þar sem litið er á barnið sem hæfan einstakling með möguleika og getu til að efla eigin þekkingu. Til að vinna með hæfileika og styrkleika barnanna er áhersla á lýðræði, samræðu, sjálfsstyrkingu og þekkingaleit.
Leikskólinn lokar að jafnaði í fjórar vikur á sumrin vegna sumarleyfa og að auki er hann lokaður í fimm daga yfir skólaárið vegna skipulagsdaga.