Greiningar- og ráðgjafadeildGreiningar- og ráðgjafadeild

Markmið greiningar- og ráðgjafadeildar er að veita börnum, foreldrum og starfsfólki skóla stuðning. 

Markmið greiningar- og ráðgjafadeildar er að valdefla skóla í faglegu starfi til að sinna fjölbreyttum þörfum barna á leikskóla aldri. Þetta er gert með snemmtækri íhlutun, greiningu, ráðgjöf og námskeiðum, eftir því sem við á samkvæmt ákvæðum reglugerðar nr. 584/2010 um sérfræðiþjónustu sveitarfélaga og fleiri reglugerðum sem tengjast lögum um leikskóla frá árinu 2008. 

Forvarnir

Forvarnir eru viðfangsefni sem nauðsynleg eru til að vernda börn gegn ógn og hættum af öllu tagi. Í leikskólum fer fram margvísleg fræðsla og áætlanagerð um forvarnir. Nánari upplýsingar um slíkt má fá hjá hverjum leikskóla, t.d. í skólanámskrám, starfsáætlunum og á heimasíðum. Sérstakur samstarfsaðili í forvörnum í skólakerfinu er forvarnafulltrúi Hafnarfjarðar.

Sérkennsla

Markmið með sérkennslu í leikskólum er að tryggja að börn fái notið leikskóladvalar sinnar og fái fjölbreytilega kennslu sem taki mið af þörfum viðkomandi barns. Leikskólar bera ábyrgð á að börn sem þess þurfa hljóti sérkennslu.

Í hverju leikskóla starfar sérkennslustjóri sem er faglegur umsjónarmaður sérkennslu skólans. Tengiliðir vegna barna sem njóta sérkennslu eru sérkennslu- og kennsluráðgjafar greiningar- og ráðgjafadeildar mennta- og lýðheilsusvið Hafnarfjarðar.

Í einhverjum tilvikum getur barn þurft að sækja stuðning utan leikskóla, til dæmis iðjuþjálfun, sjúkraþjálfun eða talþjálfun

Reglur varðandi fylgd/ferðir fyrir leikskólabörn í þjálfun á skólatíma

Sálfræðiþjónusta

Sálfræðingar leikskóla gera athuganir á leikskólabörnum og veita starfsfólki leikskóla og foreldrum ráðgjöf. Beiðnir um sálfræðiþjónustu þurfa að berast til sérkennslustjóra leikskóla á þar til gerðu eyðublaði, sem útfyllt er í samstarfi foreldra og leikskóla. Samþykki foreldra fyrir beiðni þarf ætíð að liggja fyrir.

Talmeinaþjónusta

Talmeinafræðingar gera athuganir á leikskólabörnum og veita starfsfólki leikskóla og foreldrum ráðgjöf. Beiðnir um athugun talmeinafræðings þurfa að berast til sérkennslustjóra leikskóla á þar til gerðu eyðublaði, sem útfyllt er í samstarfi foreldra og leikskóla. Samþykki foreldra fyrir beiðni þarf ætíð að liggja fyrir.

Uppeldi - PMTO foreldrafærni og SMT skólafærni

PMTO stendur fyrir Parent Management Training – Oregon aðferð, og er aðferð fyrir foreldra og aðra sem koma að uppeldi. PMTO er gagnreynd aðferð sem dregur úr hegðunarerfiðleikum barna og unglinga og eflir foreldra í hlutverki sínu. Fjölbreytt úrræði, námskeið og ráðgjöf er í boði fyrir foreldra.

SMT-skólafærni er hliðstæð aðferð og PMTO þar sem lögð er áhersla á að koma í veg fyrir og draga úr hegðunarvanda.

Allir grunnskólar Hafnarfjarðar hafa innleitt SMT skólafærni og einnig fjölmargir leikskólar. 

Aðgangur foreldra að upplýsingum í vörslu greiningar- og ráðgjafadeildar skrifstofu mennta- og lýðheilsusviðs

Foreldrar geta fengið afrit af gögnum í vörslu greiningar- og ráðgjafadeildar með persónulegum upplýsingum um eigin börn. Farið er með slíkar upplýsingar í samræmi við gildandi lög um persónuvernd. Farið er eftir reglugerð 16. gr. laga um leikskóla og 18. gr. laga um grunnskóla um miðlun upplýsinga milli skóla og innan sama skólastigs. Réttur foreldra til upplýsinga sem ekki fara með forsjá barns er samkvæmt fyrirmælum 52. gr. barnalaga nr. 76/2003.


Var efnið hjálplegt? Nei