Stoðþjónusta í grunnskóla


Stoðþjónusta í grunnskóla

Eitt af verkefnum grunnskólans er að stuðla að því að börnum líði vel í skólanum. Innan hvers grunnskóla er stoðþjónusta sem hefur það hlutverk að styðja við nemendur, starfsfólk og foreldra.

Nemendavernd

Í grunnskólum er nemendaverndaráð sérstakur vettvangur til að vinna að hagsmunum nemenda, vernd og öryggi í skólastarfi sbr. reglugerð nr. 584/2010. Til nemendaverndarráðs geta starfsfólk skóla, foreldrar og félagsþjónusta skotið málum einstakra nemenda. Hver skóli setur sér eigin vinnureglur um starfshætti nemendaverndarráða í samræmi við lög og reglur. Þar eru jafnframt teknar ákvarðanir um tilkynningar til félagsþjónustu í samræmi við lög þar um.

Forvarnir

Í grunnskólum fer fram margvísleg fræðsla og áætlanagerð um forvarnir. Nánari upplýsingar um slíkt má fá hjá hverjum grunnskóla, t.d. í skólanámskrám, starfsáætlunum og á heimasíðum. Sérstakur samstarfsaðili í forvörnum í skólakerfinu er forvarnafulltrúi Hafnarfjarðar.

Náms- og starfsráðgjöf

Í hverjum skóla er starfandi námsráðgjafi sem sinnir náms- og starfsráðgjöf fyrir nemendur. Verkefni námsráðgjafa eru m.a. að styðja einstaka nemendur, vinna að forvörnum og náms- og starfsfræðslu í skólum. Nánari upplýsingar fást í viðkomandi grunnskóla um starfshætti námsráðgjafa innan skóla.

Kennsla tvítyngdra nemenda - túlkaþjónusta

Nemendur sem hafa annað móðurmál en íslensku eða hafa búið lengi erlendis eiga rétt á sérstakri íslenskukennslu. Sú kennsla fer fram í öllum grunnskólum. Það er á ábyrgð hvers grunnskóla að koma á móts við börn sem þurfa á þessari aðstoð að halda og hafa milligöngu um þjónustuna. Það er réttur foreldra sem ekki skilja íslensku að fá túlkaþjónustu á foreldrafundum og öðrum samverum í skólum þeim að kostnaðarlausu.

Sálfræðiþjónusta

Sálfræðingur er starfandi í öllum grunnskólum Hafnarfjarðar. Sálfræðingur hvers grunnskóla sinnir greiningu, fræðslu og ráðgjöf en sinnir ekki meðferð. Tilvísanir til sálfræðings berast í gegnum nemendaverndarráð eða lausnarteymi grunnskólans, samþykki foreldra verður ávallt að liggja fyrir. Tilefni beiðna geta verið margvísleg en sérstök áhersla er lögð á snemmtækt mat og greiningu á stöðu nemanda vegna náms, hegðunar og sálrænna erfiðleika. Einnig er veittur stuðningur við nemendur, foreldra og kennara í formi ráðgjafar, fræðslu og eftirfylgni. Nánari upplýsingar um þjónustuna fást í hverjum grunnskóla.

Talmeinaþjónusta

Börn sem eiga við frávik í máli og /eða tali að glíma eiga rétt á greiningu talmeinafræðings ásamt sérkennslu og stuðningi við nám í grunnskóla. Talmeinafræðingur veitir einnig ráðgjöf til starfsfólks grunnskóla. Foreldrar geta óskað eftir greiningu og ráðgjöf talmeinafræðings en í öllum tilvikum þarf skriflegt samþykki foreldra að liggja fyrir áður en greining fer fram. Nánari upplýsingar er að fá í viðkomandi grunnskóla eða á mennta- og lýðheilsusviðs.

Uppeldi - PMTO foreldrafærni og SMT skólafærni

PMTO stendur fyrir Parent Management Training – Oregon aðferð, og er aðferð fyrir foreldra og aðra sem koma að uppeldi. PMTO er gagnreynd aðferð sem dregur úr hegðunarerfiðleikum barna og unglinga og eflir foreldra í hlutverki sínu. Fjölbreytt úrræði, námskeið og ráðgjöf er í boði fyrir foreldra.

SMT-skólafærni er hliðstæð aðferð og PMTO þar sem lögð er áhersla á að koma í veg fyrir og draga úr hegðunarvanda.

Allir grunnskólar Hafnarfjarðar hafa innleitt SMT skólafærni og einnig fjölmargir leikskólar.

Sérkennsla

Börnum sem hafa sérþarfir í grunnskólum er veitt sérstök þjónusta til að styðja við nám þeirra tímabundið eða alla skólagönguna.

Sá stuðningur getur ýmist verið veittur inni í bekk samhliða almennri kennslu, í sérstökum kennslustofum með öðrum sérkennslunemendum, í sérdeildum innan grunnskólanna í Hafnarfirði eða í sérskólum utan bæjarins.

Sérkennslustuðningur er veittur þeim börnum sem þurfa slíkan stuðning í sínu námsumhverfi. Hver grunnskóli hefur umsjón með skipulagi og framkvæmd sérkennslu í samvinnu við skrifstofu mennta- og lýðheilsusviðs.


Var efnið hjálplegt? Nei