SérfræðiþjónustaSérfræðiþjónusta

Það er verkefni skólakerfisins að vinna að því að börnum líði vel í skóla og að þau séu örugg þar. Starfsfólk skóla fylgist með líðan nemenda í skólanum.

Nemendavernd

Í grunnskólum er nemendaverndaráð sérstakur vettvangur til að vinna að hagsmunum nemenda, vernd og öryggi í skólastarfi sbr. reglugerð nr. 584/2010. Til nemendaverndarráðs geta starfsfólk skóla, foreldrar og félagsþjónusta skotið málum einstakra nemenda. Hver skóli setur sér eigin vinnureglur um starfshætti nemendaverndarráða í samræmi við lög og reglur. Þar eru jafnframt teknar ákvarðanir um tilkynningar til félagsþjónustu í samræmi við lög þar um.

Forvarnir

Forvarnir eru hvert það viðfangsefni sem nauðsynlegt er til að vernda börn gegn ógn og hættum af öllu tagi. Í grunnskólum fer fram margvísleg fræðsla og áætlanagerð um forvarnir. Nánari upplýsingar um slíkt má fá hjá hverjum grunnskóla, t.d. í skólanámskrám, starfsáætlunum og á heimasíðum. Sérstakur samstarfsaðili í forvörnum í skólakerfinu er forvarnafulltrúi Hafnarfjarðar.

Náms- og starfsráðgjöf

Í hverjum skóla er starfandi námsráðgjafi sem sinnir náms- og starfsráðgjöf. Verkefni hennar eru m.a. að styðja einstaka nemendur, vinna að forvörnum og náms- og starfsfræðslu í skólum. Nánari upplýsingar fást í viðkomandi grunnskóla.

Kennsla tvítyngdra nemenda - túlkaþjónusta

Nemendur sem hafa annað móðurmál en íslensku eða hafa búið lengi erlendis eiga rétt á sérstakri íslenskukennslu. Sú kennsla fer fram í öllum grunnskólum bæjarins en einnig er sérstök móttökudeild í Lækjarskóla fyrir nýja Íslendinga (10-15 ára)  áður en þeir hefja nám í almennum bekk. Yngri börn fara beint í almennan bekk í sínum hverfisskóla. Foreldrar sem ekki skilja íslensku eiga rétt á þjónustu túlka á foreldrafundum og öðrum samverum í skólum.

Sálfræðiþjónusta

Sálfræðiþjónusta er veitt nemendum í grunnskólum í samræmi við þarfir og aðstæður í hverjum skóla. Sálfræðiþjónusta er veitt á grundvelli beiðna frá skóla eða foreldrum en samþykki foreldra verður ávallt að liggja fyrir. Tilefni beiðna geta verið margvísleg en sérstök áhersla er lögð á snemmtækt mat og greiningu á stöðu nemanda vegna náms, hegðunar og sálrænna erfiðleika.  Einnig er veittur stuðningur við nemendur, foreldra og kennara í formi ráðgjafar, fræðslu og eftirfylgni.  Nánari upplýsingar um   þjónustuna fást í hverjum grunnskóla.

Sérkennsla - sérdeildir

Börnum sem hafa sérþarfir í grunnskólum er veitt sérstök þjónusta til að styðja við nám þeirra tímabundið eða alla skólagönguna. Sá stuðningur getur ýmist verið veittur inni í bekk samhliða almennri kennslu, í sérstökum kennslustofum með öðrum sérkennslunemendum, í sérdeildum innan grunnskólanna í Hafnarfirði eða í sérskólum utan bæjarins. Sérkennslustuðningur er veittur á grundvelli greininga og / eða metinna þarfa og kennsla er veitt eftir forgangi í samræmi við úthlutað fjármagn til sérkennslu hverju sinni.
 
Aðgangur að sérdeildum er háður beiðnum frá foreldrum og samþykki inntökuteymis hverrar sérdeildar.  Aðgangur að sérskólum er háður samþykki sérfræðiþjónustu grunnskóla og skólastjóra viðkomandi sérskóla. Nemendur í Hafnarfirði sem sækja sérdeild, sérskóla og móttökudeild erlendra nemenda og búa ekki í því skólahverfi sem sérdeildin er í, fá akstur í og úr skóla. Nánari upplýsingar eru í viðkomandi sérdeild, sérskóla eða á Skólaskrifstofu Hafnarfjarðar. Þá hefur bærinn samstarf við önnur sveitarfélög um möguleg úrræði í öðrum skólum, t.d. Klettaskóla.

Sérdeildir

Lækjarsskóli 

  • Fyrir nemendur með þroskaraskanir í 1. – 10. bekk.
  • Fjölgreinadeild fyrir nemendur í 9. og 10. bekk. Fyrir nemendur sem af ýmsum ástæðum hefur ekki farnast vel í almennum skóla (námserfiðleikar, einelti, hegðunarerfiðleikar). Mikil áhersla á verklegt nám.
  • Móttökudeild erlendra nemenda fyrir nýja Íslendinga í 5. – 10. bekk. Gert er ráð fyrir að nemendur stundi nám við deildina í hálft til tvö ár en flytjist að því loknu í heimaskóla í búsetuhverfi

Setbergsskóli

  • Fyrir nemendur með alvarlegar raskanir á einhverfurófi í 1. – 10. bekk.

Öldutúnsskóli 

  • Fyrir nemendur með vægar þroskaraskanir / alvarlega námserfiðleika í 8. – 10. bekk.

Talmeinaþjónusta

Börn sem eiga við frávik í máli og /eða tali að glíma eiga rétt á greiningu talmeinafræðings ásamt sérkennslu og stuðningi við nám í grunnskóla. Talmeinafræðingur veitir einnig ráðgjöf til starfsfólks grunnskóla. Foreldrar geta óskað eftir greiningu og ráðgjöf talmeinafræðings en í öllum tilvikum þarf skriflegt samþykki foreldra að liggja fyrir áður en greining fer fram. Nánari upplýsingar er að fá í viðkomandi grunnskóla eða á Skólaskrifstofu Hafnarfjarðar.

Uppeldi - PMTO foreldrafærni og SMT skólafærni

PMTO stendur fyrir Parent Management Training – Oregon aðferð, og er aðferð fyrir foreldra og aðra sem koma að uppeldi. PMTO er sannprófað meðferðarprógramm sem dregur úr hegðunarerfiðleikum barna og unglinga og eflir uppalendur í hlutverki sínu. Fjölbreytt úrræði, námskeið og ráðgjöf er í boði fyrir foreldra og forsjáraðila og auk þess hefur aðferðin verið innleidd í alla grunnskóla Hafnarfjarðar og átta leikskóla undir formerkjum SMT – School Managment Training. SMT-skólafærni er hliðstæð aðferð og PMTO þar sem lögð er áhersla á að koma í veg fyrir og draga úr hegðunarvanda með því m.a. að kenna og þjálfa félagsfærni, hvetja æskilega hegðun og samræma viðbrögð alls starfsfólks gagnvart nemendum sem sýna óæskilega hegðun. 

 

Fagfólk með sérfræðiþekkingu á aðferðum PMTO starfar bæði á skrifstofu fræðslu- og frístundaþjónustu og á skrifstofu fjölskylduþjónustu.

Fyrirspurnir berist til: elisai@hafnarfjordur.is

 


Var efnið hjálplegt? Nei