Að hefja nám í grunnskólaAð hefja nám í grunnskóla

Öll börn á aldrinum 6-16 ára er tryggð 10 ára skólavist í grunnskóla á Íslandi. 

Starfsemin grundvallast á lögum um skólastigið sem síðast komu út árið 2008, ásamt síðari tíma breytingum á þeim, og á reglugerðum sem þeim tengjast.

Nám í grunnskólum Hafnarfjarðar er nemendum að kostnaðarlausu. Nemendur í 1.-4. bekk fá 30 kennslustundir á viku, 35 kennslustundir í 5.-7. bekk og 37 kennslutundir í 8.-10. bekk. Sú kennsla tekur mið af aðalnámskrá grunnskóla en hver skóli hefur jafnframt smá möguleika með val um kennslu einstakra námsgreina. Nemendur fá lánaðar fjölnota kennslubækur sem skilað er að notkun lokinni. Eins fá nemendur einnota kennslubækur sem eru þeirra eign ásamt ritföngum og stílabókum þeim að kostnaðarlausu. Jafnframt er möguleiki á dvöl í frístundaheimili eftir að skóla lýkur á daginn í 1.-4. bekk.

Meginsjónarmiðið í grunnskólanámi er að allir nemendur fái nám og kennslu við hæfi. Í því felst sú hugmynd að allir nemendur fái jöfn tækifæri til náms og námið fari fram án aðgreiningar. Allir nemendur hafi aðgang að skóla óháð námslegri getu og annarri sérstöðu eins og fötlun, þjóðerni, kyni og fleiru. Í einhverjum tilvikum óska foreldrar eftir námi fyrir börn sín í sérskólum og sérdeildum innan grunnskólanna og er leitast við að verða við því eftir sem úrræði og pláss eru til staðar á hverjum tíma.

Innritun er til 1. febrúar ár hvert vegna skólagöngu frá haustinu á eftir. Innritun eftir þann tíma minnkar möguleika á skólum til að fá inngöngu í. Það er á ábyrgð foreldra/forráðamanna að innrita börn í grunnskóla í því sveitarfélagi sem þau hafa lögheimili í. Grunnskólar Hafnarfjarðarbæjar eru opnir öllum börnum og eru foreldrar hvattir til að kynna sér starfsemi grunnskóla Hafnarfjarðar. Hafnarfjörður er eitt skólaumdæmi skipt upp í skólahverfi og ræður lögheimili nemenda því í hvaða hverfisskóla þeir eiga vísa skólavist. Engu að síður er hægt að sækja um skóla í öðrum hverfum og í öðrum sveitarfélögum eða skólum. Um það gilda sérstakar reglur sem kynntar eru á vef skólanna sem einnig er hægt að nálgast hér.

Innritun fer fram rafrænt á vef Hafnarfjarðar, www.hafnarfjordur.is, í gegnum MÍNAR SÍÐUR undir: Umsóknir – Grunnskólar. Þar er umsókn um námsvist í viðeigandi skóla valin. Skóli staðfestir eða hafnar skólavist eftir atvikum.


Var efnið hjálplegt? Nei