BRÚIN - Barn | Ráðgjöf | Úrræði


BRÚIN - Barn | Ráðgjöf | Úrræði

Markmið BRÚARINNAR er að samþætta þjónustu bæjarins og auka lífsgæði barna, unglinga og fjölskyldna þeirra

Hafnarfjörður hefur frá með haustinu 2018 þróað verklag sem hefur hlotið nafnið Brúin. Tilgangur Brúarinnar að efla stuðning og þjónustu við börn í leik- og grunnskólum bæjarins. Helsta markmiðið er samþætta þjónustu og auka lífsgæði barna, unglinga og fjölskyldna þeirra. Áhersla er lögð á að veita aukna þjónustu á fyrri stigum með aðkomu brúarteyma leik- og grunnskólanna. Ásamt því hefur samvinna fagfólks verið efld á milli fjölskyldu- og barnamálasviðs og mennta- og lýðheilsusviðs Hafnarfjarðar. Verklag Brúarinnar er í takt við lög um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna sem taka í gildi áramótin 2021/2022.

Brúarteymi innan leik- og grunnskóla

Í brúarteymum sitja fagaðilar á vegum skólans, ásamt ráðgjöfum frá fjölskyldu- og skólaþjónustu Brúarinnar og ráðgjöfum frá mennta- og lýðheilsusviði. Hlutverk brúarteyma er að kortleggja stöðu barns og leita sameiginlegra lausna, barni og fjölskyldu þess til stuðnings. Í brúarteymi er nám, hegðun, þroski og/eða líðan barns rædd með samþykki foreldra og viðunandi úrræði virkjuð til að bregðast fyrr við erfiðleikum eða aðstæðum barnsins.

FerillBruinLeikskoliVerkferill Brúarinnar fyrir leikskólastigið 

FerillBruinGrunnskoliVerkferill Brúarinnar fyrir grunnskólastigið

Breytt verklag í þjónustu við börn og fjölskyldur

Í byrjun var verklag Brúarinnar innleitt í sjö leikskóla og þrjá grunnskóla. Haustið 2019 bættust við fjórir leikskólar og tveir grunnskólar. Skólaárið 2020-2021 voru allir leik- og grunnskólar orðnir þátttakendur í þróun verklagsins. Ekki er um tímabundið verkefni að ræða heldur breytta nálgun í þjónustu við börn og fjölskyldur hjá Hafnarfjarðarbæ.

Viðhorfskönnun var gerð í mars 2019 á meðal starfsfólks brúarteyma þeirra leik- og grunnskóla sem voru í Brúnni og meðal foreldra þeirra barna sem höfðu fengið þjónustu í gegnum brúarteymi. Niðurstöður sýndu að starfsfólk var almennt ánægt með skýrt verklag Brúarinnar og taldi að markviss samvinna og þjónusta frá fjölskyldu- og barnamálasviði og mennta- og lýðheilsusviði væri að nýtast vel fyrir börn og fjölskyldur þeirra sem þurfa á auknum stuðningi að halda. Þeir foreldrar sem svöruðu könnuninni töldu stuðninginn sem þeir fengu í gegnum brúarteymin gagnast fjölskyldunni vel.

Til þess að óska eftir þjónustu brúarteymis er foreldrum bent á að hafa samband við umsjónarkennara, deildarstjóra eða skólastjórnendur í leikskóla eða grunnskóla barnsins.

Hvert get ég leitað? Úrræðaleitarvél

Vakin er athygli á úrræðaleitarvélinni sem er verkefni á vegum Minningarsjóðs Einars Darra - Eitt líf. Leitarvélin inniheldur lista yfir úrræði sem hægt er að leita til þegar vandasöm mál bera að garði sem varða og/eða tengjast geðheilbrigði, fíkn, ofbeldi, kynheilbrigði, félagsmálum eða fráfalli ástvinar.


Var efnið hjálplegt? Nei