Reykjanesbraut - framkvæmdir


Reykjanesbraut - framkvæmdir

Upplýsingasíða fyrir breikkun Reykjanesbrautar í Hafnarfirði

Yfirstandandi framkvæmdir og lokanir vegna tvöföldunar

Umferð var hleypt á tvöfalda Reykjanesbraut í Hafnarfirði þriðjudaginn 24. nóvember.  Þar með lauk að mestu framkvæmdum sem Vegagerðin bauð út í fyrra og hófust í maí 2019. Útboð Vegagerðarinnar hljóðaði upp á tvöföldun Reykjanesbrautar, gerð nýrrar vegbrúar yfir Strandgötu, gerð tveggja göngubrúa yfir Reykjanesbraut við Ásland og Þorlákstún ásamt gerð umfangsmikilla hljóðvarna. Þá voru í verkinu breytingar á lagnakerfum veitufyrirtækja sem og nýlagnir, og loks frágangur á landi og landmótun.ÍSTAK var verktaki verksins en Mannvit sá um eftirlit. Verkáætlanir stóðust í stórum dráttum og hefur lítil sem engin töf orðið á afhendingu verksins þrátt fyrir óvenjulega tíma. Verktaki vinnur nú að lokafrágangi á og við Reykjanesbrautina.

Þessi vegakafli, Reykjanesbraut (41) Kaldárselsvegur – Krýsuvíkurvegur, er sá fyrsti sem klárast af þeim sem tilheyra Samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins auk þess sem gert er ráð fyrir legu Borgarlínunnar undir Reykjanesbrautina við Strandgötu í framtíðinni.

Sjá eldra efni frá undirbúningi framkvæmda hér fyrir neðan

Upplýsingar um tvöföldun Reykjanesbrautar

Nú hyllir undir að lokið verði við tvöföldun Reykjanesbrautar í gegnum Hafnarfjörð. Búið er að bjóða út tvöföldun brautarinnar frá Kaldárselsvegi vestur fyrir Krýsuvíkurgatnamót og tengd verk sem snúa að breytingum á lögnum veitufyrirtækja. Verkið er samvinnuverkefni Vegagerðarinnar og Hafnarfjarðarbæjar. Reiknað er með að framkvæmdir hefjist á vormánuðum  2019 og ljúki seint haustið 2020.

Kynningarmyndband sem lýsir framkvæmdunum sjónrænt hér fyrir neðan

https://www.youtube.com/watch?v=So63XPtaNgw

Markmiðið með framkvæmdunum er að:

  • auka umferðaröryggi
  • bæta umferðarflæði og umferðarrýmd
  • bæta hljóðvist í nágrenni brautarinnar
  • bæta samgöngur yfir Reykjanesbraut milli hverfa í Hafnarfirði


Þetta er gert með því að:

  • aðskilja akstursstefnur á Reykjanesbraut með miðeyju og vegriði
  • gera tvær akreinar í hvora átt alla leið
  • byggja umtalsverðar hljóðvarnir báðum megin brautar
  • byggja tvær nýjar göngubrýr yfir brautina


Undirbúningur
Undirbúningur að tvöfölduninni hófst árið 2013 þegar undirgöng fyrir göngu- og hjólastíg voru gerð við Suðurbraut og svo árið 2017 þegar mislæg gatnamót voru gerð við Krýsuvíkurveg.

Framkvæmdir 2019-2020
Reykjanesbraut verður tvöfölduð á kaflanum frá Kaldárselsvegi vestur fyrir Krýsuvíkurgatnamót með því að byggja nýja akbraut sunnan núverandi vegar. Brautin verður með 3m breiða miðeyju milli akbrauta með vegriðum báðum megin. 

Brautin verður grafin niður allt að 4m á tveimur köflum; í fyrsta lagi á kaflanum frá núverandi göngubrú við Ásland og að Strandgötu og í öðru lagi gegnum Hvaleyrarholtið frá Þorlákstúni og vestur fyrir nýju undirgöngin við Suðurbraut. Á þeim kafla verður brautin einnig sveigð lítillega til suðurs. Það skapar svigrúm fyrir hugsanlega færslu á Suðurbraut við Hvaleyrarskóla. Tvenn nýleg undirgöng undir Reykjanesbraut, fyrir gangandi við Suðurbraut og undirgöngin í mislægu gatnamótunum við Krýsuvíkurveg, eru byggð fyrir tvöfalda Reykjanesbraut. Hins vegar þarf að breikka brúna yfir Strandgötu og er það hluti af framkvæmdunum.

Gönguleiðir
Gerðar verða tvær nýjar göngubrýr yfir Reykjanesbraut. Sú fyrri verður milli Hvamma og Áslands á móts við Álftaás. Sú seinni kemur í stað núverandi undirganga við Þorlákstún. Brýrnar verða stálbogabrýr og spanna brautina í einu hafi.

Hljóðvarnir
Samhliða breikkun Reykjanesbrautar verður ráðist í umfangsmiklar aðgerðir til að minnka umferðarhávaða í nágrenni brautarinnar. Ný hljóðmön verður gerð milli Reykjanesbrautar og Ásbrautar á móts við Erluás. Til að koma henni fyrir þarf að endurgera göngustíginn frá enda núverandi göngubrúar og upp á Goðatorg. Einnig verður hljóðmönin við Ásbraut á móts við Álftaás hækkuð þar sem nýja göngubrúin kemur.

Hljóðmanir við Hvamma verða endurgerðar. Þar verða notuð svokölluð jarðvegshólf næst brautinni til að ná fram betri hljóðvist. Við Suðurhvamm eru einnig reistir glerveggir ofan á möninni sem ná inn á Strandgötu. Auk þess verður settur hljóðveggur á norðurkant Strandgötubrúar og milli rampanna í gatnamótunum. Þá er einnig settur hljóðveggur úr timbri meðfram Þúfubarði þar sem nú er girðing.

Á Þorlákstúni verða gerðar hljóðvarnir. Austast verða háar manir með jarðvegshólfum en á vestari hlutanum verður gerð hefðbundin jarðvegsmön. Í deiliskipulagi fyrir Þorlákstún er gert ráð fyrir hækkun á landi frá því sem nú er. Er ráðgert að nota umframefni sem leggst til í verkinu til þess að hækka land þar. Loks er gert ráð fyrir staðbundnum vörnum við tengistöð HS veitna á móts við Suðurholt.

Veitur
Samhliða vega- og brúargerð þarf að færa mikið af lögnum. Þar er um að ræða 132 kV háspennustreng Landsnets, háspennustrengi frá HS veitum, vatnslagnir, hitaveitulagnir og fjarskiptalagnir. Færsla lagna fyrir norðan og sunnan Reykjanesbrautar er í sérstökum verkum sem einnig hafa verið boðin út. Reiknað er með að færsla lagna geti hafist fljótlega á nýju ári og verði að mestu lokið þegar vega- og brúargerð hefst. Veitufyrirtækin senda einnig kynningarbréf til þeirra sem mest verða fyrir áhrifum af þeirra framkvæmdum.


Framkvæmdatími
Eins og áður sagði verður hafist handa að útboði loknu eftir að gengið hefur verið til samninga við verktaka. Verkinu verður skipt í tvo aðaláfanga. Á þessu ári verður brautin tvöfölduð vestan Strandgötu og brúin yfir Strandgötu breikkuð. Á árinu 2020 verður hún brautin svo tvöfölduð milli Kaldárselsvegar og Strandgötu. Verklok eru áætluð í byrjun nóvember 2020. Allar upplýsingar um framkvæmdaleyfi er að finna HÉR

Fylgiskjöl og gögn vegna framkvæmda


Var efnið hjálplegt? Nei