Húsbyggjandinn


Húsbyggjandinn

Mikilvægar upplýsingar fyrir húsbyggjendur

Ekki má grafa grunn fyrir mannvirki, reisa það, rífa eða flytja, breyta burðarkerfi þess, lagnakerfum eða notkun þess, útliti eða formi, nema með leyfi byggingarfulltrúa. Byggingarleyfi verður að vera í samræmi við aðal- og deiliskipulag og í samræmi við lög um mannvirki og byggingarreglugerð.

Áður framkvæmdir hefjast þarf því að huga að ýmsum þáttum og hér fá finna upplýsingar um ýmsa þeirra. Einungis þegar búið er að afla allra leyfa, byggingarstjóri og meistarar hafa skrifað upp á verkið, álögð gjöld greidd og séruppdrætti lagðir inn geta framkvæmdir hafist. Afgreiðsla skipulags- og byggingarmála er í þjónustuveri bæjarins, Strandgötu 6, sími 585- 5500.

Sjá lög um mannvirki

Frá hugmynd að húsi

Það borgar sig að leggjast vel yfir hugmyndir og þarfir fjölskyldunnar  áður en farið er út í að byggja eða breyta. Kanna þarf vel allan kostnað og hvað þarf til.
Einungis löggiltir hönnuðir, sem hafa tryggingu, geta lagt inn uppdrætti til byggingarfulltrúa. Yfirfarið vel alla uppdrætti áður en þeim er skilað inn, ef breyta þarf uppdrætti þýðir það aukinn kostnaður. Það getur verið heppilegt  að senda fyrst fyrirspurn til byggingarfulltrúa með grófum uppdráttum ef vafi leikur á að fyrirhuguð bygging samrýmist gildandi deiliskipulagi. Þurfi að breyta deiliskipulagi hefur það kostnað  í för með sér, ferlið tekur 6-8 vikur og umsókn um byggingarleyfi er ekki afgreidd fyrr en breyting á deiliskipulagi hefur öðlast gildi.

Byggingarleyfi

Hönnuður eða eigandi leggur inn byggingarleyfisumsókn þegar uppdrættir eru fullkláraðir, en aðeins eigandi getur verið skrifaðir fyrir byggingarleyfisumsókninni.

Byggingarleyfisumsóknir eru yfirfarnar og afgreiddar á afgreiðslufundum skipulags- og byggingarfulltrúa sem haldnir eru vikulega , eftir hádegið á miðvikudögum.  Ef  umsókn og uppdrættir uppfylla allar kröfur, samþykkir byggingarfulltrúi byggingaráformin og að byggingarleyfi verði gefið út að uppfylltum eftirfarandi ákvæðum laga um mannvirki.

  • Mannvirkið og notkun þess samræmast skipulagsáætlunum á svæðinu.
  • Aðal- og séruppdrættir hafa verið yfirfarnir og leyfisveitandi hefur áritað þá til staðfestingar á samþykki.
  • Byggingarleyfisgjöld og önnur tilskilin gjöld hafa verið greidd, svo sem gatnagerðargjald samkvæmt ákvæðum laga um gatnagerðargjald og bílastæðagjald eða gjald fyrir skipulagsvinnu samkvæmt ákvæðum skipulagslaga, eða samið um greiðslu þeirra. Undanskilin eru þó gjöld sem falla ekki í gjalddaga fyrr en við útgáfu byggingarleyfis.
  • Byggingarstjóri hefur undirritað yfirlýsingu um ábyrgð sína og afhent leyfisveitanda undirritaða ábyrgðaryfirlýsingu þeirra iðnmeistara sem ábyrgð munu bera á einstökum verkþáttum.

Ef gerðar eru athugasemdir við erindið fá hönnuðir og eigandi bréf eða netpóst þar að lútandi. Einnig getur byggingarfulltrúi vísað málinu áfram til skipulags- og byggingaráðs sem fundar hálfsmánaðarlega á þriðjudagsmorgnum.

Ef engar athugasemdir eru gerðar, getur tekið eina viku frá því að umsókn berst þar til byggingaráform eru samþykkt.  Umsækjandi og hönnuður fá sent bréf því til staðfestingar. Þegar skilyrðin hér að ofan eru uppfyllt, uppdrættir stimplaðir og afhentir er hægt að sækja um grófa útsetningu og framkvæmdir geta hafist.

Ef verið er að breyta eitthvað lítilsháttar t.d. gluggum, hurðum, innra skipulagi o. þ.h., er byggingarleyfi gefið út þegar álögð gjöld hafa verið greidd og byggingarstjóri og meistarar skráðir.

Grenndarkynning

Sú staða getur  komið upp að byggingar- og framkvæmdaleyfi kallar á óverulega breytingu á deiliskipulagi og er þá heimilt að grenndarkynna málið. Í því felst að nágrönnum  í vissum radíusi, sem taldir eru eiga hagsmuna að gæta, er sent málið til kynningar. Þeim er veittur athugasemdarfrestur sem er að minnsta kosti fjórar vikur. Byggingarleyfisumsókn er ekki afgreidd fyrr en þessu ferli er lokið.

Framkvæmdatími

Á byggingartíma þarf húsbyggjandi sem verkkaupi að fylgja því eftir að framkvæmdir séu í samræmi við samþykkta uppdrætti  og allt gangi eins og það á að gera.

Byggingarstjóri er faglegur fulltrúi eiganda og ber ábyrgð á að byggt sé  í samræmi við samþykkta aðal- og séruppdrætti og  á að kalla til úttektarmann byggingarfulltrúa við vissa verkþætti og úttektin fer fram eftir samþykktum og stimpluðum uppdráttum sem þurfa að vera á staðnum. Byggingarstjóri ræður iðnmeistara í samráði við eiganda og bera þeir ábyrgð hver á sínum verkþætti.
Byggingarstjóri skal hafa fullnægjandi ábyrgðartryggingu sem gildi í að minnsta kosti 5 ár.

Hönnuðir og iðnmeistarar hafa frest til ársloka 2014 til að koma upp gæðastjórnunarkerfi . Það getur borgað sig að ráða einungis hönnuði, byggingarstjóra og  iðnmeistara sem hafa þegar komið upp slíku kerfi.
Þó eigandi ætli sér að vinna sjálfur við framkvæmdir þarf alltaf að fá byggingarstjóra og meistara og eru þeir ábyrgir fyrir öllum verkum.

Svört vinna eða nótulaus viðskipti er ólögleg og getur verið dýrkeypt þar sem að engar tryggingar eða ábyrgð er til staðar og getur verið erfitt að kvarta yfir göllum eða einhverju sem er áfátt við verkið.

Alltaf geta orðið einhverjar ófyrirséðar breytingar við framkvæmdir og helsta orsökin fyrir því að framkvæmdin verður dýrari heldur en lagt er upp með, eru þær breytingar sem gerðar eru á byggingartímanum.  Hafa þarf í huga að ef breytt er út frá samþykktum uppdráttum þarf að leiðrétta uppdrætti og sækja um breytingar á byggingarleyfinu með tilheyrandi kostnaði.

Leitaðu ráða hjá tryggingarfélagi varðandi tryggingar meðan á framkvæmdum stendur og einnig þegar framkvæmdum er lokið; hvort biðja þurfi um endurmat á tryggingum.

Lok framkvæmda

Áður en viðbygging eða nýbygging er tekin í notkun, þarf að kalla eftir öryggisúttekt byggingarfulltrúa, en óheimilt er að taka byggingu í notkun án þess.
Þegar framkvæmdinni er að fullu lokið í samræmi við staðal ÍST51/2001 og búið að ganga frá húsi/viðbyggingu og lóð, á byggingarstjóri að kalla eftir lokaúttekt. Eigandi eða byggingarfulltrúi geta líka kallað eftir lokaúttekt. Við lokaúttekt þarf allt að vera tilbúið og byggt í samræmi við samþykkta uppdrætti. Ef ekki  þarf að leiðrétta uppdrætti og sækja um breytingu á byggingarleyfinu með tilheyrandi kostnaði.

Byggingarstjóri og meistarar bera 5 ára ábyrgð á verkþáttum frá og með dagsetningu á lokaúttektarvottorði. Við verklok biður húseigandi um fullnaðar- eða brunabótamati hjá Þjóðskrá Íslands-fasteignaskrá. Við matið leggst skipulagsgjald á allar nýframkvæmdir sem greiðist í eitt skipti. Gjaldið er 0,3% af brunabótamati hverrar húseignar. Hafi eitthvað komið uppá á byggingartíma eða gallar eru á framkvæmdinni, á ekki að bíða með að kvarta eða benda á gallann. Það skal gera skriflega og senda á byggingarstjórann.   Hægt er að kalla eftir úttekt byggingarfulltrúa eða fengið óháðan matsmann til að taka framkvæmdina út. Fyrir allar aukaúttektir, öryggis- og lokaúttektir þarf að greiða sérstaklega, því borgar sig að vera nokkuð viss um að allt sé tilbúið til úttektar áður en kallað er til hennar.

Eignaskiptayfirlýsing

Einungis þeir aðilar sem til þess hafa leyfi geta gert eignaskiptayfirlýsingu.
Við samþykkt á byggingaráformum og útgáfu á byggingarleyfi þar sem fleiri en ein eign er í húsi, þarf að leggja inn eignaskiptayfirlýsingu til samþykktar hjá byggingarfulltrúa og síðan þinglýsa henni. Kostnað við þinglýsingar greiða húseigendur. Við allar breytingar í húsi, hvort sem það eru íbúðar-, atvinnu- eða gripahús, sem geta haft áhrif á eignarprósentu í lóð og húsi, svo sem viðbyggingar,bílskúrar , sólskálar o.fl., þarf að gera nýja eignaskiptayfirlýsingu.

Ef eignum í húsi er fjölgað,  þarf að fylgja eignaskiptayfirlýsingu umsókn um fjölgun eigna frá Þjóðskrá sjá:  skra.is – Fasteignaskrá – Skráning fasteigna – Ný fasteign.
Hægt að skila inn eignaskiptayfirlýsingu rafrænt til yfirferðar og samþykktar ásamt fylgiskjölum sem henni fylgja á netfangið esk@hafnarfjordur.is . Þegar samþykkt  yfirlýsingin liggur fyrir þarf eigandi að skila inn tveimur eintökum á pappír ásamt umsókn um yfirferð og umsókn um fjölgun eigna ef við á.

Eyðublöð og umsóknirVar efnið hjálplegt? Nei