Skarðshlíð
Nýtt hverfi | Fjöldi íbúða um 520 | Fjöldi íbúa um 1.300
Öllum lóðum hefur verið úthlutað og framkvæmdir að hefjast eða hafnar. Frumbyggjar fluttu inn sumarið 2020
- Nýtt hverfi
- Áætlaður fjöldi íbúða: 520
- Áætlaður fjöldi íbúa: 1.300
- Staða: Öllum lóðum hefur verið úthlutað og framkvæmdir að hefjast eða hafnar
- Sérstaða: Fjölskylduvæn íbúðahverfi með grænu yfirbragði. Draumabyggð þeirra sem vilja leika og lifa í nánd við náttúruna
Um Skarðshlíðarhverfi
Skarðshlíð er fjölskylduvænt íbúðahverfi í Hafnarfirði sem liggur á flata og í brekku sunnan og vestan í Ásfjalli. Við hönnun og skipulag hverfisins var áhersla lögð á heildræna sýn, heildrænar götumyndir, vistvænt skipulag, sjálfbærni, grænt yfirbragð og fjölbreytt útisvæði. Stutt er í alla þjónustu, möguleikar á að starfa í heimabyggð miklir og mikil nálægð við uppland Hafnarfjarðar og fallegar náttúruperlur. Uppbygging í hverfi er þegar komin vel á veg.
Frumbyggjar fluttu í hverfið sumarið 2019 og þá þegar var starfsemi Skarðshlíðarskóla komin á fullt og leikskóli opnaður um haustið undir sama þaki. Sumarið 2020 var húsnæði skólasamfélagsins í Skarðshlíð fullbyggt og hýsir það í dag heildstæðan grunnskóla, fjögurra deilda leikskóla, tónlistarskóla og íþróttahús fyrir bæði skólastigin. Þjóna skólarnir og starfsemi skólanna nýrri byggð í Skarðshlíð og Vallahverfi að hluta. Einnig er framundan frekari uppbygging íþróttamannvirkja á Ásvöllum sem bætir enn nærliggjandi þjónustu og aðstöðu í hverfunum. Tvöföldun Reykjanesbrautar lauk í árslok 2020 og þá um vorið hófust framkvæmdir við Ásvallabraut sem tengir saman Vallahverfi, Skarðshlíðarhverfi og Ásland. Ásvallabrautin var opnuð á haustmánuðum 2021 og þar með urðu Skarðshlíð og hverfi innarlega á Völlunum betur tengd Kaldárselsvegi og Reykjanesbraut.
Vinsælt búsetusvæði með uppland Hafnarfjarðar í bakgarðinum
Blönduð byggð íbúðarhúsa
Í Skarðshlíð rís blönduð byggð einbýlishúsa, parhúsa, raðhúsa og lágreistra fjölbýlishúsa. Lóðir fyrir fjöleignarhús standa á flata nálægt skólanum en byggðin greinist svo upp Skarðshlíðarbrekkuna með raðhúsum og parhúsum neðst og einbýlishúsum ofar þar sem landhalli er meiri. Hverfið er til þess fallið að taka á móti öllum, hvort sem um er að ræða pör, litlar eða stórar fjölskyldur eða eldri einstaklinga sem vilja minnka við sig en samt komast í nýtt húsnæði. Hverfisskólarnir, Skarðshlíðarskóli og Skarðshlíðarleikskóli, hafa þegar tekið til starfa og það undir sama þaki. Tónlistarskóli Hafnarfjarðar starfar einnig í húnsæðinu og hefur gert frá haustinu 2020.
Góðar samgöngur
Samgöngur milli hverfa eru nokkuð greiðar og sífellt að verða greiðari. Ný mislæg gatnamót eru komin í notkun auk þess sem tvöföldun Reykjanesbrautar lauk síðla hausts 2020. Ásvallabraut sem tengir hverfið við Kaldárselsveg opnaði haustið 2021 og greiðir hún fyrir umferð til og frá hverfinu.