5 mínútna hverfið
Þétting byggðar | Fjöldi íbúða um 2.600 | Fjöldi íbúa um 6.500
Deiliskipulag samþykkt fyrir fyrsta reit með 490 íbúðir í fjölbýli. Tillögur að næsta reit hafa verið lagðar fram
- Þétting byggðar
- Áætlaður fjöldi íbúða: 2.600
- Áætlaður fjöldi íbúa : 6.500
- Staða skipulagsmála: Deiliskipulag samþykkt fyrir fyrsta reit af nokkrum reitum. 490 íbúðir í fjölbýli. Fyrstu tillögur að deiliskipulagi fyrir reit 2 með 262 íbúðum hafa verið lagðar fram. Fleiri tillögur eru í vinnslu. Framkvæmdahraði ræðst á lóðarhöfum
- Sérstaða: Byggt á gömlum grunni í Hraun-vestur. Blönduð byggð með íbúðum, verslun og þjónustu. Grænn útivistarás, aukin nýting, hraunbollar og bæjartorg
Leiðbeinandi heildarsýn um þróun skipulagssvæðisins
Rammaskipulag fyrir Hraun vestur var samþykkt 15. ágúst 2018. Reiturinn skiptist í 7 hverfi og gert er ráð fyrir að hverfin byggist upp í áföngum á 15 – 20 árum. Deiliskipulag hefur verið samþykkt fyrir eitt hverfi, hverfi 1/Gjótur og lögð hefur verið inn umsókn um deiliskipulag hverfis 3/Hjallar. Reiturinn Hraun vestur afmarkast af Reykjavíkurvegi, Fjarðarhrauni og Flatahrauni. Landnotkun og uppbygging reitsins tekur mið af verslun, þjónustu og íbúðarsvæði. Tillagan er afrakstur vinnu Teiknistofu Arkitekta og Krads arkitekta.
Rammaskipulag - frumdrög
Nýtt rammaskipulag fyrir blandaða byggð í iðnaðarhverfi, Hraun - vestur, úthverfi í Hafnarfirði sem hefur með þróun byggðar enda mjög miðsvæðis á höfuðborgarsvæðinu.
Hraun - vestur afmarkast af Reykjavíkurvegi, Flatahrauni og Fjarðarhrauni, 34 hektara svæði sem hýsir í dag margvíslega atvinnustarfsemi og þjónustu auk þess sem búið er á litlum hluta. Svæðið mætti hins vegar nýta betur þó svo mikilvægt sé að halda í sem mest af þeirri starfsemi sem fyrir er.
Árið 2017 skiluðu fimm arkitektastofur tillögum í samkeppni um nýtt skipulag fyrir Hraun - vestur. Teiknistofa Arkitekta og KRADS arkitektar voru valin til að þróa hugmyndir sínar áfram í sameiningu og tvinna saman tillögur sínar. Nýtt rammaskipulag er afrakstur þeirrar vinnu.
Rammaskipulag byggir á núverandi byggð og lóðamörkum. Hægt verður að þétta byggðina með því að nýta auðar lóðir og fylla í skörð eða byggja ofan á eða við núverandi byggingar skv. heimildum um aukið byggingarmagn og nýjar hæðatakmarkanir.
Uppbygging. Gert er ráð fyrir að hverfið í heild byggist í áföngum á um 15-20 árum. Rammaskipulag setur meginreglur fyrir uppbygginguna með það að markmiði að ná fram fjölbreyttu og aðlaðandi borgarumhverfi. Í framhaldinu verða unnar deiliskipulagsáætlanir fyrir einstaka hluta hverfisins, m.a. í samráði við lóðarhafa.
Blönduð byggð með mismunandi áherslum eftir staðsetningu. Áhersla er lögð á verslun og þjónustu ásamt skrifstofum við breiðgötur og borgargötur. Við vistgötur eru íbúðir að hluta til einnig á jarðhæðum.
Leiðbeinandi heildarsýn um þróun skipulagssvæðisins
Rammaskipulag þetta hefur ekki lögformlegt gildi. Hlutverk rammaskipulags er að gefa leiðbeinandi heildarsýn um þróun skipulagssvæðisins. Í kjölfar samþykktar þess verða afmarkaðir áfangar deiliskipulagðir. Í deiliskipulagi eru endanlegar útfærslur, landnýting og byggingarmagn lögformlega ákvarðaðar. Á þessu stigi er því gerður fyrirvari um allar tölulegar stærðir, lóðarmörk og aðrar útfærslur sem fram koma í rammaskipulaginu.