Flensborgarhöfn - ÓseyrarsvæðiFlensborgarhöfn - Óseyrarsvæði

Opin hugmyndasamkeppni um framtíðarskipulag

Allt frá árinu 2003 hefur staðið yfir, með nokkrum hléum, vinna við tillögugerð að nýju deiliskipulagi fyrir Flensborgarhöfn. Nokkrar tillögur voru kynntar árið 2009 og haustið 2014 var haldinn opinn fundur um framtíð Flensborgarhafnar. Í framhaldinu var ákveðið að vinna forsögn að deiliskipulagi fyrir svæðið. Haustið 2016 var skipaður stýrihópur fulltrúa úr hafnarstjórn og skipulagsráði Hafnarfjaðarbæjar sem vann úr forsögninni grunn aðsamkeppnislýsingu .

Niðurstaða þessa starfshóps var m.a. að stækka skipulagssvæðiðog væntanlegt samkeppnissvæði inn á land Óseyrar, vestan við Flensborgarhöfn. Vegna skipulagsvinnu við nýjar höfuðstöðvar Hafrannsóknarstofnunar sem nú er verið að reisa við Fornubúðir var tímasetningu samkeppninnar frestað á árinu 2017, en í nóvember það ár var samþykkt að opin hugmyndasamkeppnin yrði sett af stað í ársbyrjun 2018 og niðurstöður kynntar í byrjun sumars.

Samkeppnin var haldin í samvinnu Hafnarfjarðarbæjar, Hafnarfjarðarhafnar og Arkitektafélags Íslands. Dómnefndarfulltrúar voru tilnefndir af hafnarstjórn, skipulagsráði og Arkitektafélaginu. Dómnefndin tók til starfa í byrjun janúar sl. Alls bárust 14 tillögur í samkeppnina og mat dómnefndin tillögurnar samkvæmt áherslum og markmiðum keppnislýsingar samkeppninnar. Dómnefnd vill þakka tillöguhöfundum fyrir áhugverðar og fjölbreyttar hugmyndir sem jafnan voru skýrar og vel fram settar.

Niðurstaða dómnefndar

Við mat sitt á tillögum lagði dómnefnd megináherslu á sterka heildarlausn fyrir allt svæðið, aðlaðandi og lifandi umhverfi og gott flæði gangandi jafnt sem akandi. Einnig var sérstaklega horft til þess að tillagan væri með góðar tengingar að aðliggjandi svæðum, ekki síst tengingu hafnarsvæðis og miðbæjarsvæðis. Skapað væri mannvænlegt umhverfi á svæðinu og þróun þess væri á forsendum staðarins og drægi fram þau gæði sem hann býr yfir. Dómnefnd verðlaunar þrjár tillögur og að auki er einni tillögu veitt viðurkenning sem athyglisverð tillaga. Það er mat dómnefndar að engin ein tillaga hafi svarað að fullu því sem fram kom í keppnislýsingu en að tillögur sem valdar eru til að deila 1. og 2. sæti bæti hvor aðra upp og að saman komist þær nærri því að svara að fullu því sem var óskað eftir. Styrkur þeirra liggi annarsvegar í sannfærandi tengingu við miðbæ og mótun Flensborgarhafnar og hinsvegar góðri lausn annarra svæða innan samkeppnisreitsins. Sameiginlega nái þær einnig að spegla markmið svæðaskipulags með tilliti til þéttingar byggðar á fyrirhuguðum þróunarási Borgarlínu.


Var efnið hjálplegt? Nei