Ásvallabraut


Ásvallabraut

Upplýsingasíða fyrir Ásvallabraut

Vorið 2020 hófust framkvæmdir við Ásvallabraut sem tengir saman Vallahverfi og Ásland. Framkvæmdir munu standa yfir til haustsins 2021. Ekki er gert ráð fyrir lokunum vegna framkvæmdarinnar. Framkvæmdin var boðin út á vormánuðum 2020.

AsvallabrautYfirlitsmynd

Upplýsingar um Ásvallabraut

Með lagningu Ásvallabrautar frá Skarðshlíð að Áslandi 3 verða tengd saman byggðasvæði sitt hvoru megin Ásfjalls og þar með verða Skarðshlíð og hverfin ofarlega á Völlum betur tengd Kaldárselsvegi og Reykjanesbraut. Einnig er Ásvallabraut ætlað að þjóna byggingarsvæðum sem fyrirhuguð eru í framtíðinni, sitt hvoru megin við hana, þ.m.t. Hamraneshverfi sem nú er í undirbúningi.

Lega brautarinnar liggur yfir nyrstu hesthúsin við Kaldárselsveg. Við Hlíðarþúfuhverfið ná fláar neðan við brautina að hestagerðum í hverfinu. Til þess að lágmarka fyllingar er brautin grafin niður gegnum hábungu leiðarinnar. Veglína frá hábungu í átt að Vallarhverfinu er felld í landið. Þar sem farið er niður um dalverpi að Vallahverfinu þarf að skera vegstæðið inn í hlíð til þess m.a. að ná hagstæðum lengdarhalla á veglínu. Í Ásvallabraut verður ein akrein í hvora átt með möguleika á breikkun í tvær akreinar í hvora átt.

Yfirlitsmyndband

Ásvallabraut

Göngu- og hjólreiðaleiðir

Gönguleiðir sem munu liggja norðan við fyrirhugaða Ásvallabraut munu tengjast íbúðahverfi við Brekkuás. Þá liggur göngustígur samhliða brautinni frá Kaldárselsvegi til Skarðshlíðar. Gerð verða undirgöng undir Ásvallabraut fyrir göngustíg sem liggur Kaldárselsvegi.

AsvallabrautGonguHjolleidir

Hljóðvist

Ráðist verður í umfangsmiklar aðgerðir til að minnka umferðarhávaða í nágrenni Ásvallabrautar. Á stórum kafla er er gert ráð fyrir hljóðmön samhliða Ásvallabraut. Hljóðveggir verða settir upp á fyrir neðan Brekkuás meðfram Ásvallabraut. Veggurinn mun ekki skerða útsýni íbúa. Þá er gert ráð fyrir skógræktarsvæðum á leiðinni.

Veitur

Samhliða Ásvallabrautinni munu Vatnsveita Hafnarfjarðar og HS veitur leggja stofnlagnir til hringtenginga á sínum veitukerfum. Þetta er gert til að auka rekstraröryggi kerfanna, hvoru um sig. Stofnlagnirnar verða lagðar í göngustíginn sem liggur samsíða Ásvallabrautinni að norðanverðu og verður lögð áhersla á í verkinu, að lagning þessara lagna klárist á þessu ári.

Framkvæmdatími

Eins og áður sagði er framkvæmdatími áætlaður frá vori 2020 til hausts 2021. Verkinu er skipt upp í tvo verkáfanga. Annars vegar undirbúningsvinnu sem framkvæmd verður vor og sumar 2020 og hins vegar lokafrágang og undirgöng sem verða framkvæmd árið 2021.  

Fylgiskjöl og gögn vegna framkvæmda

Spurt og svarað um Ásvallabraut

Hvenær fór Ásvallabraut inn á skipulag?

Braut á þessu svæði, sem tengir Vallahverfi og Ásland og liggur milli hesthúsa og íbúðahverfis, hefur verið á skipulagi frá 1980. Braut sem síðar fékk heitið Ásvallabraut.

Var það skoðað að brautin myndi liggja annars staðar og þá utar?

Já, það var skoðað, greint og metið. Núverandi lega tekur m.a. mið af kostnaði, umhverfisþáttum og öryggi. Samkvæmt eldra skipulagi þá átti brautin að liggja nær byggð í Áslandi. Sjá hagræna greiningu frá Mannviti sem unnin var árið 2017.

Hver verður hámarkshraði umferðar um Ásvallabraut?

Hámarkshraði er 50 km/klst

Hvenær má gera ráð fyrir að framkvæmdir hefjist og að þeim verði lokið?

Útboð verður auglýst í febrúar 2020 og er gert ráð fyrir að framkvæmdir hefjist vorið 2020. Verklok eru ráðgerð haustið 2021. Ekki er gert ráð fyrir lokunum vegna framkvæmdarinnar.

Gegnir Ásvallabraut öryggishlutverki og ef svo er hvernig þá?

Já, hún gerir það. Með Ásvallabraut verða tvær leiðir úr og í Vallahverfi, sem og stækkandi hverfi Skarðshlíðar og Hamraness. Þegar neyðaráætlanir sveitarfélaga voru unnar á sínum tíma, var sérstaklega bent á að það þyrfti að vera önnur leið af Völlunum umfram Reykjanesbraut og Ásbraut.


Var efnið hjálplegt? Nei