Styðjandi samfélag


Styðjandi samfélag

Hafnarfjarðarbær er styðjandi samfélag 

Hafnarfjarðarbær og Alzheimersamtökin vinna saman að innleiðingu á samfélagi sem er vinveitt, styðjandi og meðvitað um þarfir fólks með heilabilun og aðstandendur þeirra. Þannig mun Hafnarfjarðarbær, með faglegri aðstoð og öflugum stuðningi Alzheimersamtakanna, markvisst varða leið þeirra sem eru með heilabilun með því að ýta undir vitund og þekkingu hvorutveggja starfsfólks og íbúa sveitarfélagsins. Innleiðingarverkefni var formlega ýtt úr vör með fræðslu og kynningu í Bæjarbíói 11. mars 2021.

HeilavinurAfOlluHjarta

Aukin vitund allra ýtir undir vellíðan og öryggi þessa viðkvæma hóps en talið er að 4000-5000 einstaklingar búi við heilabilunarsjúkdóma á Íslandi, þar af u.þ.b. 250 manns undir 65 ára aldri. Búast má við verulegri fjölgun samhliða hækkandi aldri þjóðarinnar. Samkvæmt WHO eru nú þegar um 48 milljón manns í heiminum með heilabilunarsjúkdóm og ár hvert bætast við um 8 milljón tilfella. 

Innleiðing fræðsluverkefnis - markmið og tilgangur 

Styðjandi samfélag gerir fólki með heilabilun og aðstandendum þeirra kleift að lifa í samfélagi sem skilur stöðu þeirra og mætir þeim af virðingu. Markmiðið með fræðsluverkefninu er meðal annars að draga úr fordómum varðandi heilabilunarsjúkdóma. Það að tala opið um sjúkdóminn auðveldar fjölskyldumeðlimum og vinum að bjóða fram aðstoð sína og gerir einstaklingnum auðveldara að þiggja ráðleggingar og aðstoð sem nærumhverfið býður upp á. Það er ekki endilega hægt að sjá á fólki að það þjáist af heilabilunarsjúkdóm og er viljinn með fræðsluverkefninu að auka þekkingu fólks um heilabilunarsjúkdóma. Engin læknismeðferð er til við heilabilunarsjúkdómum en margt er vitað um áhrif heilabilunarsjúkdóma á daglegt líf þeirra sem hlut eiga að máli. Með innleiðingunni er auðveldara að mæta fólki með heilabilun af meiri skilning sem eykur þátttöku fólks í samfélaginu. Meginreglur styðjandi samfélags er að fólk með heilabilun séu hluti af samfélaginu, taki þátt og þekki réttindi sín. Umhverfið og félagslegar aðstæður þurfa að gera ráð fyrir og meðtaka þarfir fólks með heilabilun til að styðja við að fólk geti átt innihaldsríkt líf í samfélaginu. Félagslegar breytingar krefjast samstarfs hjá öllum sviðum stjórnvalda, félagasamtaka og fleirum. Allt þetta styrkir fólk með heilabilun til að taka þátt félagslega og vera virkir þátttakendur í samfélaginu.

Fræðsla til starfsfólks sveitarfélagsins 

Stofnanir og skólar Hafnarfjarðarbæjar fá fræðslu um heilabilunarsjúkdóma og samskipti við fólk með heilabilun. Markmiðið er að allir skólar og stofnanir bæjarins gerist Heilavinir og samhliða eða í framhaldinu sem flest fyrirtæki og stofnanir í Hafnarfirði. Til að öðlast slíka viðurkenningu þarf a.m.k. 50% starfsfólks á starfsstað að hafa fengið kynningu á heilabilunarsjúkdómum og áhrifum þeirra.  Kynningarefni verður gert aðgengilegt í gegnum  fræðslukerfi sveitarfélagsins og þannig gert að skyldufræðslu til alls starfsfólks sveitarfélagsins.

Fræðsla til íbúa og annarra - allir geta orðið Heilavinir

Almenningur allur getur með mjög einföldum og aðgengilegum hættum gerst heilavinur og þannig fengið greiðan aðgang að upplýsingum og fróðleik um heilabilun. Það eina sem þarf er að gefa til kynna að maður vilji auka þekkingu sína um heilabilun og vera tilbúinn til að sýna samhug og vinsemd. Því fleiri sem gerast Heilavinir þeim mun meiri líkur eru á að einstaklingur með heilabilunarsjúkdóm upplifi sig velkominn í sínu samfélagi og finni fyrir öryggi. Heilavinur tekur eftir og bregst við aðstæðum sem kunna að koma upp þar sem einstaklingur er til dæmis í vanda og virðist ekki ráða við aðstæður. Heilavinur ber lítið hjarta í barminum sem tákn um að hann sé tilbúinn að leggja sitt að mörkum í átt að styðjandi samfélagi. Hafnarfjarðar heldur kynningarfundi fyrir íbúa sem auglýstir eru sérstaklega.  Boðið er upp á sérstök heilsdagsnámskeið fyrir áhugasama sem vilja gerast leiðbeinendur sem fá fræðslu um heilabilun og hvernig þeir geti lagt sitt af mörkum til að breiða út þekkingunni í sinni heimabyggð. Námskeið eru auglýst á miðlum bæjarins og Alzheimersamtakanna. Leiðbeinendur halda kynningarfundi þar sem þeir fræða um heilabilunarsjúkdóma og hvernig hægt er að hafa jákvæð áhrif á lífið í samfélaginu fyrir fólk með heilabilun og aðstandendur þeirra. Það er ávinningur fyrir alla starfsmannahópa, vinahópa, félagasamtök og í raun hvern sem er að þekkja þessi einkenni t.d. ef þau birtast hjá samstarfsfélaga eða vini. 

Verkefnastjóri hjá Hafnarfjarðarbæ er Herdís Hjörleifsdóttir, félagsráðgjafi og verkefnastjóri (herdishj@hafnarfjordur.is). Hjá Alzheimersamtökunum er tengiliður Sigurbjörg Hannesdóttir fræðslustjóri (sibba@alzheimer.is).


Var efnið hjálplegt? Nei