Starfsþjálfun og atvinna
Hæfingu, starfsþjálfun og verndaðri vinnu er ætlað að veita fötluðu fólki þjálfun og stuðning sem miðar að því að auka hæfni þess til starfa og þátttöku í daglegu lífi eða á almennum vinnumarkaði.
Hæfing
Með hæfingu er átt við starfs- og félagsþjálfun í þeim tilgangi að draga úr áhrifum fötlunar og auka hæfni til starfa og þátttöku í daglegu lífi. Lögð er áhersla á þjálfun sem viðheldur og eykur starfsþrek, sjálfstæði í vinnubrögðum og félagslega færni.
Starfsþjálfun
Fatlað fólk getur sótt um tímabundna starfsþjálfun til að auka hæfni til að takast á við störf á almennum vinnumarkaði. Starfsþjálfun líkir eftir vinnuaðstæðum og kröfum sem búast má við á almennum vinnumarkaði. Einnig má sækja um starfsprófun sem metur hvers konar störf henta fólki í ljósi starfsgetu, áhugasviðs og starfsmöguleika.
Verkherinn
Verkherinn er atvinnutengt sumarúrræði fyrir ungt fólk 16 – 20 ára með fötlun eða skerta starfsgetu. Unnið er hálfan daginn og boðið upp á frístunda-/eða félagsstarf hinn hlutann úr deginum.
Verkherinn er til húsa í Húsinu við Suðurgötu 14.
Verkefnastjóri er Sandra Björk Halldórsdóttir. Umsóknir eru skráðar á mínum síðum eða sendar verkefnastjóra, sandrabjork@hafnarfjordur.is
Vernduð vinna
Fatlað fólk getur sótt um
vinnu á vernduðum vinnustað, en lög gera einnig ráð fyrir að atvinna með
stuðningi standi til boða á almennum vinnumarkaði.
Vernduðum vinnustöðum er ætlað
- að veita fötluðu fólki launaða starfsþjálfun svo að það verði hæfara til að starfa á almennum vinnumarkaði,
- að veita fötluðu fólki föst störf.
Vinnan er launuð samkvæmt sérstökum kjarasamningi sem byggir á samkomulagi Alþýðusambands Íslands og Hlutverks – samtaka um vinnu og verkþjálfun.
Atvinna með stuðningi
Atvinna með stuðningi (AMS) felur í sér stuðning við fólk sem hefur skerta starfsgetu vegna fötlunar. Það fær aðstoð við að finna heppilegt starf á almennum vinnumarkaði og stuðning við að sinna því.
Atvinna með stuðningi er starfrækt hjá Vinnumálastofnun höfuðborgarsvæðisins, Kringlunni 1, 105 Reykjavík. Síminn er 515-4850. Nánari upplýsingar má nálgast hér www.vinnumalastofnun.is