Fatlað fólk


Fatlað fólk

Hafnarfjarðarbær ber ábyrgð á þjónustu við fatlað fólk, stefnumótun, framkvæmd þjónustunnar og eftirliti með henni. Fatlað fólk á rétt á allri almennri þjónustu sveitarfélagsins en sé þjónustuþörf meiri er sértæk þjónusta veitt.

Hafnarfjarðarbær veitir margvíslega þjónustu á þessu sviði:

  • Ráðgjöf og stuðning við fatlað fólk og foreldra fatlaðra barna
  • Þjónustu á heimilum
  • Hæfingu
  • Starfsþjálfun
  • Verndaða vinnu
  • Stuðningsfjölskyldur fyrir fötluð börn,
  • Akstursþjónustu

Þjónusta við fötluð börn og fjölskyldur þeirra

Frístundaklúbburinn Kletturinn býður uppá fjölbreytt tómstundastarf fyrir börn og unglinga með fötlun í 5.-10. bekk eftir að hefðbundnum skólatíma lýkur.

Fjölskyldur fatlaðra barna eiga kost á stuðningsfjölskyldu sem hefur það hlutverk að taka barnið í umsjá sína í skamman tíma til að létta álagi af fjölskyldu þess.

Þörf fyrir þjónustu er metin út frá aðstæðum barns og fjölskyldu. Við matið er horft til fötlunar barnsins og umönnunarþarfar, sem og félagslegra aðstæðna fjölskyldunnar.

Heimili og heimilishald

Markmiðið er að gera einstaklingum með fötlun kleift að búa á eigin heimili í samræmi við þarfir og óskir eftir því sem kostur er og efla þar með vald fólks yfir aðstæðum sínum og lífi.

Þjónustuúrræðin eru ætluð fyrir einstaklinga með fötlun sem hafa varanlegt örorkumat og eru í búsetu sem uppfyllir ekki óskir þeirra og sérstakar þarfir vegna fötlunar.

Fötluðu fólki stendur til boða félagsleg þjónusta og sérstakur stuðningur til að geta búið á þann hátt sem hentar hverjum og einum. Þessi þjónusta á að taka mið af aðstæðum, óskum og þörfum hvers og eins. Miðað er við að fólk eigi val um hvernig það býr, á sama hátt og aðrir í samfélaginu. Þjónustan á að aðstoða fólk við að ráða lífi sínu og aðstæðum, styrkja stöðu þess og lífsgæði.

Hægt er að sækja um þjónustu heim á formi félagslegrar stuðningsþjónustu og stoðþjónustu, hvort sem fólk býr í eigin íbúð, leiguíbúð á almennum markaði eða félagslegri leiguíbúð.

NPA

NPA er þjónustuform sem ætlað er að uppfylla þarfir fatlaðs fólks fyrir aðstoð heima og úti í samfélaginu. Þjónustan er skipulögð á forsendum notandans og undir verkstjórn hans. Með því að gera samning um NPA fær notandi greiðslur í stað þjónustu, velur aðstoðarfólk, er sjálfur verkstjórnandi, ákveður hvað hann vill gera og hvernig aðstoðarfólk nýtist.

Þjónandi leiðsögn

Hafnarfjarðarbær leggur ríka áherslu á að þjónandi leiðsögn verði í fyrirrúmi í allri vinnu með fólk sem nýtir þjónustu í skammtímadvöl, heimaþjónustu og heimilum fólks með fötlun. Lögð er áhersla á stuðning við fólk, að skapa aðstæður í stað stýringar, skapa félaga í stað starfsmanna og hlúa að eðli einstaklingsins svo hann geti notið sín sem hann sjálfur.

Starfsmenn Hafnarfjarðar sem sinna þessum málaflokki er bent á að kynna sér þessa handbók í þjónandi leiðsögn.

Þar er fjallað nánar um hugmyndafræði þjónandi leiðsagnar, grunnstoðir hennar sem og verkfæri.

Handbók - Þjónandi leiðsögn  

Akstursþjónusta

Megintilgangur akstursþjónustu fatlaðs fólks er að notendur hennar geti stundað vinnu, nám, hæfingu, þjálfun og tómstundir og notið heilbrigðisþjónustu.

Akstursþjónustan er ætluð til afnota fyrir íbúa Hafnarfjarðar sem eru andlega og/eða líkamlega skertir og geta ekki nýtt sér almenningsfarartæki.

Starfsþjálfun og atvinna

Hæfingu, starfsþjálfun og verndaðri vinnu er ætlað að veita fötluðu fólki þjálfun og stuðning sem miðar að því að auka hæfni þess til starfa og þátttöku í daglegu lífi eða á almennum vinnumarkaði.

Lækur

Lækur athvarf fyrir einstaklinga með geðrænan vanda. Húsnæðið býður upp á fjölbreytta starfsemi með tölvum og aðstöðu til listsköpunar. Einnig er til staðar þvotta og baðaðstaða.

Réttargæsla fatlaðs fólks

Fatlað fólk sem á erfitt með að gæta réttar síns getur valið sér persónulegan talsmann sem hjálpar því að koma óskum sínum á framfæri. Talsmaðurinn aðstoðar fólk við að gæta réttar síns og við önnur persónuleg málefni, svo sem samskipti við heilbrigðisstarfsmenn, val á búsetu, atvinnu, tómstundum og ráðstöfun fjármuna.

Hér er hægt að sjá starfandi réttargæslumenn

Ráðgjafaráð

Ráðgjafaráð er starfandi í Hafnarfirði, ráðinu er ætlað að vera ráðgefandi við bæjaryfirvöld og stofnanir bæjarins og vera talsmaður fatlaðra bæjarbúa hvað varðar skipulag og framkvæmd þjónustunnar.


Var efnið hjálplegt? Nei