Barnavernd


Barnavernd

Hlutverk barnaverndar er að tryggja að börn sem búa við óviðunandi aðstæður eða börn sem stofna heilsu sinni og þroska í hættu fái nauðsynlega aðstoð.

Barnavernd leitast við að styrkja fjölskyldur í uppeldishlutverki sínu og beita úrræðum til verndar einstökum börnum þegar það á við.

Verkefni barnaverndar er vinnsla mála samkvæmt barnaverndarlögum, félagsráðgjöf í tengslum við fjölskyldur og barnavernd, umsagnir í ættleiðingarmálum, úttektir á fósturfjölskyldum og stuðningsfjölskyldum, sumardvalir barna og forvarnastarf.

Við mat á þörf fyrir að tilkynna aðstæður barna og unglinga

 • Líkamleg og tilfinningaleg vanræksla
 • Líkamlegt, andlegt eða kynferðislegt ofbeldi og misnotkun
 • Ung börn skilin eftir gæslulaus eða í umsjá annarra barna
 • Eldri börn skilin eftir gæslulaus langtímum saman og þurfa að sjá um sig sjálf
 • Léleg skólasókn, skólaskyldu ekki sinnt
 • Afbrot, árásargirni
 • Heilsugæslu eða læknisaðstoð ekki sinnt þrátt fyrir þörf
 • Endurtekin slys og óhöpp sem hægt hefði verið að fyrirbyggja
 • Endurteknir áverkar sem barn á erfitt með að útskýra
 • Vannæring
 • Lélegur fatnaður og umhirða sem samræmist ekki aðstæðum
 • Óeðlileg útivist og endurtekin brot á útivistarreglum
 • Áfengis- og/eða vímuefnaneysla foreldra
 • Almennt vanhæfi foreldra

Atriði sem sérstaklega varða unglinga

 • Áfengis- og vímuefnaneysla
 • Léleg skólasókn
 • Endurtekin afbrot
 • Ofbeldishegðun
 • Þunglyndi, geðræn vandkvæði, sjálfsvígshugleiðingar


Hvert get ég leitað? Úrræðaleitarvél

Vakin er athygli á úrræðaleitarvélinni sem er verkefni á vegum Minningarsjóðs Einars Darra - Eitt líf. Leitarvélin inniheldur lista yfir úrræði sem hægt er að leita til þegar vandasöm mál bera að garði sem varða og/eða tengjast geðheilbrigði, fíkn, ofbeldi, kynheilbrigði, félagsmálum eða fráfalli ástvinar.

Tilkynning til barnaverndar

Hverjum þeim sem hefur ástæðu til að ætla að barn búi við ofbeldi eða vanrækslu er skylt að tilkynna það til barnaverndarnefndar. Einnig ef ástæða er til að ætla að atferli einstaklings, sem starfa sinna vegna hefur samskipti við börn, sé stórlega ábótavant. Samkvæmt íslenskum barnaverndarlögum teljast einstaklingar yngri en 18 ára vera börn. Lögin ná einnig yfir ófædd börn t.d. ef þeim stafar hætta af vímuefnaneyslu móður eða af ofbeldi sem móðir verður fyrir.

Sá sem tilkynnir til barnaverndarnefndar verður að segja til nafns en ef óskað er nafnleyndar veit aðeins það starfsfólk sem kannar málið nafn tilkynnanda. Tilkynnandi þarf að gera grein fyrir nafni, netfangi og símanúmeri til þess að hægt sé að hafa samband til að fá nánari upplýsingar.

Tilkynning til barnaverndarnefndar er ekki kæra heldur fremur beiðni um aðstoð fyrir viðkomandi barn eða fjölskyldu sem tilkynnandi telur að sé hjálparþurfi. Hægt er að senda tilkynningu með því að hafa samband við þjónustuver, nota eyðublöðin hér á síðunni eða senda tölvupóst á barnavernd@hafnarfjordur.is. Ef ná þarf sambandi við barnavernd utan skrifstofutíma er hringt í neyðarlínuna 112.

TILKYNNING TIL BARNAVERNDAR 

ÉG ER BARN OG HEF ÁHYGGJUR

TILKYNNING TIL BARNAVERNDAR UM STARFSMANN

ZGŁOSZENIE DO URZĘDU DS. OCHRONY DZIECI

ZGŁOSZENIE DO URZĘDU DS. OCHRONY DZIECI / BARNAVERND - PRACOWNIK

REPORTING TO CHILD PROTECTION SERVICES

REPORT TO CHILD PROTECTIONS SERVICES - NOTICE ABOUT AN EMPLOYEE


Var efnið hjálplegt? Nei