Heimaþjónusta
Heimili og heimilishald
Fötluðu fólki stendur til boða félagsleg þjónusta og sérstakur stuðningur til að geta búið á þann hátt sem hentar hverjum og einum. Þessi þjónusta á að taka mið af aðstæðum, óskum og þörfum hvers og eins. Miðað er við að fólk eigi val um hvernig það býr, á sama hátt og aðrir í samfélaginu.
Þjónustan á að aðstoða fólk við að ráða lífi sínu og aðstæðum, styrkja stöðu þess og lífsgæði.
Hægt er að sækja um þjónustu heim á formi félagslegrar heimaþjónustu og frekari liðveislu, hvort sem fólk býr í eigin íbúð, leiguíbúð á almennum markaði eða félagslegri leiguíbúð.
Sumir búa í sérstöku íbúðarhúsnæði sem hefur verið hannað með þarfir fatlaðs fólks í huga (áður sambýli eða heimili fyrir fatlað fólk).
Sjá nánar undir félagslegt leiguhúsnæði.
Félagsleg heimaþjónusta
Félagslegri heimaþjónustu er ætlað að aðstoða fólk sem þarf stuðning til að geta séð um sig sjálft, svo sem aðstoð við almennt heimilishald, persónulega umhirðu og félagslegan stuðning.
Frekari liðveisla
Frekari liðveislu er ætlað að aðstoða fólk sem þarf sérstakan stuðning við ýmsar athafnir í daglegu lífi sínu. Sá stuðningur kemur til viðbótar félagslegri liðveislu og heimaþjónustu og á að gera fólki kleift að búa eins og því hentar best.