FjárhagsaðstoðFjárhagsaðstoð

Umsókn um fjárhagsaðstoð skal leggja fram hjá félagsþjónustunni í lögheimilissveitarfélagi umsækjanda. Hægt er að sækja um fjárhagsaðstoð með því að fylla út beiðni um þjónustu á MÍNAR SÍÐUR. Ráðgjafi hefur samband í kjölfarið og veitir frekari upplýsingar. 

Þegar gögn berast á tímabilinu 20-26. hvers mánaðar vegna yfirstandandi mánaðar verður fjárhagsaðstoð afgreidd síðasta virka dag þess mánaðar. Ef gögn berast síðar þá verður fjárhagsaðstoð greidd næsta miðvikudag á eftir.

Reglur um fjárhagsaðstoð hjá Hafnarfjarðarbæ

Hafnarfjörður hefur gert grundvallarbreytingar á reglum og verkferlum bæjarins varðandi fjárhagsaðstoð. Tilgangur hennar er aðstoð til virkni, vinnu og sjálfsbjargar. Allir umsækjendur um fjárhagsaðstoð eiga rétt til þjónustu út frá einstaklingsbundnu mati á aðstæðum og hagsmunum umsækjanda þar sem virkni og virðing fyrir hverjum og einum eru höfð að leiðarljósi. Fjárhagsaðstoð er veitt í eðlilegum tengslum við önnur úrræði félagsþjónustunnar, svo sem ráðgjöf og leiðbeiningar. 

ÁFRAM verkefni Hafnarfjarðarbæjar - vinna eða virkni í stað bóta

Vinnufærir umsækjendur fá tilboð um tímabundið starf í stað styrks. Umsækjendur með skerta vinnufærni fá tilboð um virka aðstoð til endurkomu á vinnumarkað með virkniúrræðum samhliða hlutastarfi eða starfsendurhæfingu. Þetta er gert með boði um úrræði í samstarfi við Vinnumálastofnun, boði um starfsendurhæfingu í samstarfi við VIRK/Starfsendurhæfingu Hafnarfjarðar, boði um vímuefnameðferð í samstarfi við SÁÁ eða boði um önnur úrræði eftir þörfum hvers og eins.

umsókn um fjárhagsaðstoð

ÁFRAM til virkni og vinnu með þátttöku atvinnulífsins

ÁFRAM verkefni Hafnarfjarðarbæjar miðar að því að bjóða einstaklingum, sem aðstæðna sinna vegna þiggja fjárhagsaðstoð hjá sínu sveitarfélagi, upp á möguleika til að virkja hæfileika sína og getu í samstarfi við atvinnulífið og skapa þannig raunhæf tækifæri til innkomu eða endurkomu á vinnumarkað. Meginregla verkefnis er vinna eða virkni í stað bóta. Þannig eru sniðin einstaklingsbundin úrræði eftir þörfum hvers og eins sem miða að því að endurhæfa og styrkja viðkomandi einstakling.

Vinnufærir einstaklingar fái boð frá fyrirtækjum og stofnunum um starf

Hafnarfjarðarbær vill efla samstarf við fyrirtæki og stofnanir í Hafnarfirði og hvetja hafnfirska vinnuveitendur til að bjóða vinnufærum einstaklingum tímabundið starf. Samningur milli vinnuveitanda og sveitarfélagins er gerður á grundvelli samstarfs sveitarfélagsins og Vinnumálastofnunar um ráðningar og þjónustu við atvinnuleitendur án bótaréttar hjá Atvinnuleysistryggingasjóði. Með samningi skuldbindur Hafnarfjarðarbær sig til að greiða atvinnurekanda stofnstyrk vegna ráðningar um kr. 185.000, - á mánuði í allt að sex mánuði. Greidd laun eru ávallt samkvæmt gildandi kjarasamningi og starfið þarf að vera að lágmarki 2/3 hluti af fullu starfi.

Skilyrði fyrir greiðslu styrks á grundvelli samnings eru að:

  • ráðning viðkomandi atvinnuleitanda feli í sér aukningu á starfsmannafjölda hlutaðeigandi fyrirtækis eða stofnunar
  • hlutaðeigandi fyrirtæki eða stofnun hafi að minnsta kosti einn starfsmann á launaskrá áður en til ráðningar viðkomandi atvinnuleitanda kemur
  • hlutaðeigandi fyrirtæki eða stofnun hafi síðastliðna sex mánuði ekki sagt starfsmönnum upp störfum sem gegnt höfðu starfi sem fyrirhugað er að ráða viðkomandi atvinnuleitanda til að gegna
  • ráðning viðkomandi atvinnuleitanda til hlutaðeigandi stofnunar eða fyrirtækis feli ekki í sér verulega röskun á samkeppni innan atvinnugreinarinnar á því svæði sem um ræðir hverju sinni.
  • Vinnuveitandi skal greiða viðkomandi atvinnuleitanda laun samkvæmt ákvæðum gildandi kjarasamnings. Samningur fellur úr gildi komi til slita á ráðningarsambandi milli hlutaðeigandi vinnuveitanda og viðkomandi atvinnuleitanda á gildistíma samningsins.

Nánari upplýsingar veitir Soffía Ólafsdóttir, deildarstjóri hjá fjölskylduþjónustu: 585-5500 / soffiao@hafnarfjordur.is

Um ÁFRAM verkefnið

Árið 2015 fékk Hafnarfjarðarbær viðurkenningu fyrir nýsköpun í opinberri þjónustu fyrir verkefnið Áfram! Ný tækifæri í Hafnarfirði. Ekki var um átaksverkefni að ræða heldur breytingu á vinnulagi og fyrirkomulagi til frambúðar gagnvart þeim einstaklingum sem fengu fjárhagsaðstoð hjá sveitarfélaginu. Strax í upphafi voru sköpuð yfir 100 störf hjá sveitarfélaginu inn í verkefnið.  


Var efnið hjálplegt? Nei