Vinnuskólinn • UngmenniHreinsaBaeinn

Vinnuskóli Hafnarfjarðar

Skrifstofa í gamla hjálparsveitahúsinu að Hrauntungu 5

Vinnuskóli Hafnarfjarðar býður unglingum bæjarins uppá skemmtilega og fræðandi sumarvinnu.


Sækja um starf í vinnuskólanum 

Starfsmenn á skrifstofu Vinnuskólans eru:

Bára Kristín Þorgeirsdóttir
Forstöðumaður
barak@hafnarfjordur.is


vinnuskoli@hafnarfjordur.is

Vinnuskóli Hafnarfjarðar býður unglingum bæjarins upp á skemmtilega og lærdómsríka sumarvinnu.

Allir unglingar á 14. aldursári og eru búsettir í Hafnarfirði er boðin vinna öll sumur til 17. ára aldurs. Hlutverk Vinnuskólans er að veita starfsmönnum uppbyggileg sumarstörf ásamt fræðslu í öruggu starfsumhverfi. Lögð er áhersla á að veita starfsmönnum skemmilega og ánægjulega innsýn inn í atvinnulífið meðfram því að undirbúa starfsmenn undir það sem koma skal á hinum almenna vinnumarkaði. Áhersla Vinnuskólans er að starfsumhverfið sé hvetjandi og gefandi en einnig að starfsmönnum hans, íbúum og gestum Hafnarfjarðar sé sýnd kurteisi og virðing.

Skrifstofur Vinnuskóla Hafnarfjarðar eru staðsettar að Hrauntungu 5 og eru opnar alla virka daga milli 08:00 -16:00. Einnig er hægt að ná í starfsmenn skrifstofunnar í síma 565-1899 og á tölvupóstfangið vinnuskoli@hafnarfjordur.is .

Vinnutímabil

Vinnutímabil unglinga er misjafnt eftir aldri. Unglingar fæddir á árunum 2003-2005 hefja allir vinnu 11. júní 2019.

 • 14 ára unglingar vinna 79 tíma yfir sumarið.
 • 15 ára unglingar vinna 101 tíma yfir sumarið.
 • 16 ára unglingar vinna 123 tíma yfir sumarið.

Daglegur vinnutími

Daglegur vinnutími unglinga fer eftir aldri.

Vinnutími hjá 14 ára unglingum miðast við 12 klst á viku eða 3 tíma á dag, mánudaga – fimmtudaga. Aðra hverja viku er unnið fyrir hádegi (kl. 09-12) og eftir hádegi hina vikuna (kl. 13-16).

Vinnutími 15 og 16 ára unglinga er einnig mánudaga – fimmtudaga. Aðra hverja viku er unnið fyrir hádegi (kl. 09-12) og eftir hádegi hina vikuna (kl. 13-16). Einhverja daga vinna unglingarnir allan daginn, til að ná að klára tímana sína. 

Helstu verkefni

 • Götu og hverfahreinsun
 • Gróðursetning sumarblóma
 • Beðahreinsun
 • Sláttur og rakstur
 • Tyrfing

Vinnuskóli Hafnarfjarðar starfar undir stefnu skóla án aðgreiningar þar sem reynt er að koma til móts við mismunandi þarfir nemenda. Nokkuð er um að unglingar innan Vinnuskólans fari í sérverkefni sem felast meðal annars í aðstoð á íþrótta- og leikjanámskeiðum og stofnunum innan bæjarins. Með vinnu sinni fegra og bæta starfsmenn Vinnuskólans umhverfið um leið og þau þjálfast í vinnubrögðum sem skila sér út í samfélagið til framtíðar.

Í flestum tilfellum er um að ræða fyrstu kynni unglinga af launuðu starfi og áríðandi að vel takist til, því lengi býr að fyrstu gerð. Hafa ber í huga að starfsfólk Vinnuskólans á rétt á bæði matar- og kaffitímum. Þar sem starfsfólk hefur ekki neina sérstaka aðstöðu á vinnusvæðum sínum er ekki óeðlilegt að þau sjáist sitja og hvíla sig öðru hvoru. Til að tryggja sem árangursríkast vinnuuppeldi er mikilvægt að samskipti og samtöl við flokkstjóra séu á vingjarnlegum nótum án þess að það bitni á vinnuframlaginu.

Eftir bestu getu er reynt að hafa fjölbreytni í verkefnum unglinganna, en slíkt ýtir undir ánægju í vinnunni. Hópunum er dreift í ýmis verkefni innan bæjarins en stefnt er á að hafa hópana ekki mjög langt frá heimilum sínum. Flokkstjóri er ávalt með sínum hóp og er hlutverk hans meðal annars að kenna unglingum rétt handtök við þau verk sem unnin eru hverju sinni.

Vinnuskóli Hafnarfjarðar er með öllu tóbaks-, vape- og vímuefnalaus vinnustaður.

Fréttir af starfi vinnuskólans má nálgast á facebook-síðu hans.

Börn með ofnæmi

Á hverju ári koma unglingar með alls kyns ofnæmi í Vinnuskólann. Vinnuregla Vinnuskólans er að þeir unglingar þurfa að koma með læknisvottorð. Þá verður fundið verkefni sem hentar viðkomandi einstaklingi með tilliti til ofnæmis.

Fræðsla 

Réttindi og skyldur á vinnumarkaði

Í sumar verður ASÍ með kynningu fyrir alla nemendur 15 og 16 ára um réttindi og skyldur á vinnumarkaði. Er þetta hluti af því að nemendur verði fróðari um vinnumarkaðinn eftir störf sín hjá Vinnuskólanum.

Umhverfisfræðsla

Umhverfisfræðsla er stór þáttur í starfi Vinnuskólans. Vinnuskólinn er einn af þremur vinnuskólum landsins sem er þátttakandi í verkefninu Skóli á grænni grein, sem er merki um markvisst starf í þágu umhverfis. Á hverju sumri hefur Vinnuskólinn ráðið til starfa umhverfisfulltrúa sem sér um fræðslu unglinga í þessum málefnum.

Jafningjafræðsla

Vinnuskólinn býður jafningjafræðurum að koma í heimsókn til hópa með nemendum á aldrinum 15 og 16 ára. Þeir koma í heimsókn í hvern hóp einu sinni yfir sumarið. Umræðuefnið fer eftir því hvað brennur á nemendum hverju sinni. 

Algengar spurningar og svör

Hvað er Vinnuskólinn?

Vinnuskóli Hafnarfjarðar er skóli tengdur atvinnu fyrir alla 14-17 ára unglinga í Hafnarfirði. Allir sem sækja um að fá starf í skólanum.

Af hverju ætti ég að sækja um starf í Vinnuskólanum?

Þátttaka í Vinnuskólanum er kjörið tækifæri fyrir unglinga til þess að öðlast reynslu af því að vinna sér inn laun á hvetjandi og jákvæðan hátt. Unglingum gefst færi á að taka þátt í að snyrta og hirða bæinn sinn, kynnast nýjum félögum og læra heilmikið um umhverfismál, mannleg samskipti og virðingu gagnvart starfinu sínu.

Hverjir geta sótt um í vinnuskólanum? 

Allir unglingar sem búsettir eru í Hafnarfirði og verða 14-17 ára (2002-2005) á árinu geta sótt um vinnu hjá Vinnuskólanum. Unglingar sem eru á undan jafnöldrum sínum í grunnskóla geta fengið að hefja nám ári undan í Vinnuskóla. Er það þó með því skilyrði að nemandinn sé orðinn 13 ára gamall þegar hann hefur störf í samræmi við Reglugerð um vinnu barna og unglinga.

Hvað er ég að vinna lengi?

14, 15 og 16 ára unglingar (fæddir 2003-2005) hefja vinnu 11. júní.

14 ára unglingar fá að vinna 79 tímaþ

15 ára unglingar fá að vinna 101 tíma.

16 ára unglingar fá að vinna 123 tíma.

Fæ ég matarhlé?

Já, matarhlé er á milli kl. 12-13. Auk þess eru tveir kaffitímar, annar kl. 10:00 - 10:15 og hinn eftir hádegi kl. 14:00 - 14:15.

Hvenar fæ ég útborgað?

Það er alltaf greitt fyrsta dag í mánuði. Nema ef fyrsti lendir á helgi þá er borgað út síðasta virka dag í mánuðinum.

Hvert fara launin mín?

Launin eru lögð inn á bankareikning unglinganna og þurfa því allar bankaupplýsingar að fylgja umsókn. Aðeins er hægt að nota bankareikning unglingsins.

Hvað er þetta skattkort og hvað á ég að gera við það?

Allir launþegar á Íslandi sem eiga hér fasta búsetu og hafa náð 16 ára aldri eiga rétt á svokölluðum persónuafslætti og er skattkortið til þess gert að halda utan um það. Árið 2016 voru öll skattkort gerð rafræn og eru nemendur beðnir um að senda beiðni um notkun skattkorts og upplýsingar um nýttan persónuafslátt á tölvupóstfangið vinnuskolinn@hafnarfjordur.is. Taka þarf fram ef verið er að nota persónuafslátt á öðrum vinnustað og þá hvernig nemandi vill að persónuafsláttur skiptist. Allir nemendur eldri en 16 ára þurfa að skila skattkorti.

Leiðbeiningar um hvar upplýsingar um nýttan persónuafslátt er að finna hjá RSK sjá hér.

Hvert á ég að mæta?

Almennt er unglingunum komið fyrir í hópum nálægt skólum, nema aðrar óskir komi fram á umsókn viðkomandi. Flokkstjóri hringir í vikunni 3.-7. júní og segir til um hvar á að mæta fyrsta morguninn.

Get ég skipt um hóp? 

Engar breytingar eru gerðar á hópum fyrstu dagana. Síðan er það viðkomandi flokkstjóri sem ákveður breytingar í sínum hópi. Flestir eru með tvo hópa og verður að gæta þess að ekki sé ójafnvægi vegna fjölda í hópunum. Eru foreldrar beðnir um að hafa samband við skrifstofu eða viðkomandi flokkstjóra í þeim tilvikum sem óskað er eftir færslu í vinnuhópum.

Hvað á ég að gera ef ég er veik(ur)?

Ef um forföll eru að ræða þurfa forráðamenn að tilkynna þau til skrifstofu Vinnuskólans. Vanti unglinga í vinnu dag eða dagspart án þess að það sé tilkynnt á réttan hátt hafa flokkstjórar eða starfsfólk á skrifstofu samband við heimilin og leita skýringa.

Fæ ég borgað fyrir þann dag sem ég var veik(ur)?

Ekki er borgað fyrir veikindadag en ungmennum býðst að vinna upp tímana í lok tímabils.

Má ég reykja í vinnunni?

Nei. Vinnuskóli Hafnarfjarðar er tóbaks-, vape- og vímuefnalaus vinnustaður.

Laun og vinnutími

 FæðingarárLaun   Vinnustundir
 Fæddir 2002 1.456,94 kr. 220 klst.
 Fæddir 2003 835,17 kr.  123 klst.
 Fæddir 2004 626,99 kr.  101 klst.
 Fæddir 2005 554,99 kr.  79 klst.

Reglur Vinnskóla Hafnarfjarðar

Reglur Vinnuskóla Hafnarfjarðar gilda jafnt á vinnutíma sem og við félagsstörf á vegum skólans.

 1. Flokksstjóri er verkstjóri á vinnustað. Næsti yfirmaður hans er yfirflokksstjóri.
 2. Öllu starfsfólki ber að vera vinnusamt, stundvíst, heiðarlegt og kurteist.
 3. Veikindi og önnur forföll ber að tilkynna hið fyrsta til skrifstofu Vinnuskólans af forráðamönnum.
 4. Notkun tóbaks er bönnuð. Sama gildir um áfengi, rafrettur/vape og önnur vímuefni.
 5. Sjoppu og búðaferðir eru ekki leyfðar á vinnutíma, þ.m.t. kaffitíma.
 6. Nemendum ber að ganga vel og þrifalega um á vinnustað og fara vel með þau áhöld sem notuð eru.
 7. Starfsmenn bera viðeigandi kostnað ef þeir fremja skemmdarverk á eigum Vinnuskólans og annarra.
 8. Í kaffitímum er ætlast til að starfsfólk hafi hollt og gott nesti. Ekki er leyfilegt að vera með orku- og gosdrykki
 9. Notkun farsíma er ekki leyfileg á vinnutíma, nema flokkstjóri gefi leyfi um annað.
 10. Allir starfsmenn útvega sjálfir hlífðarfatnað og bera starfsmenn ábyrgð á eigin fötum og eigum. 

Brot á reglum Vinnuskólans

Þegar vandamál koma upp er flokksstjórum uppálagt að tala við viðkomandi starfsmann og setja sig í samband við forráðamenn. Flokksstjóra ber jafnframt að láta yfirmenn vinnuskóla vita af málinu án þess að þeir komi að því að öðru leyti nema þess sé óskað. Ef viðkomandi starfsmaður bætir ekki ráð sitt má eiga von á frekari áminningu og tímabundinni brottvísun sem venjulega er þrír dagar. Í stöku tilfellum dugir þetta ekki til og er þá starfsmanni vísað frá vinnu það sem eftir er af vinnutímabilinu. Það skal þó tekið fram að yfirleitt tekst að leysa vandamál áður en grípa þarf til frekari aðgerða. Reynslan sýnir að samvinna milli starfsmanna vinnuskóla og forráðamanna er lykilatriði við úrlausn hina ýmsu mála sem upp kunna að koma.


Var efnið hjálplegt? Nei