Útivist og ævintýri hjá hafnfirskum ungmennum

Fréttir

Úti-Hamarinn stendur öllum hafnfirskum ungmennum á aldrinum 16-25 ára til boða og þeir sem eru virkastir í að mæta allt tímabilið hafa forgang í lokaferðina. Haldinn var fjölmennur kynningarfundur í haust og var ákveðið að hittast í Hamrinum, alla miðvikudaga kl. 17 og halda á vit útivista og ævintýra.

Útivistarverkefni sem stendur hafnfirskum ungmennum til boða

Úti-Hamarinn er útivistarverkefni sem er keyrt áfram af starfsfólki Hamarsins, ungmennahúsi Hafnarfjarðar fyrir tilstuðlan styrks frá Lýðheilsusjóði auk þess sem ferðaþjónustufyrirtækið Tröllaferðir hefur reynst hópnum mikilvægur stuðningur með bíla og annan útbúnað fyrir þátttakendur. Úti-Hamarinn stendur öllum hafnfirskum ungmennum á aldrinum 16-25 ára til boða og þeir sem eru virkastir í að mæta allt tímabilið hafa forgang í lokaferðina. Haldinn var fjölmennur kynningarfundur í haust og var ákveðið að hittast í Hamrinum, alla miðvikudaga kl. 17 og halda á vit útivista og ævintýra. Ef veðrið reyndist óboðlegt til útivistar eða vegna óviðráðanlegra aðstæðna var sett upp kynning eða horft á heimildarmyndir. Veðrið hefur leikið við hópinn síðustu vikur og mánuði.

Gengið á Fagradalsfjall

Gengið á Fagradalsfjall

 

Gönguferðir, siglingar og sjósund

Þetta haustið gekk hópurinn á Stórhöfða, Búrfellsgjá, Úlfarsfell, Helgafell, Fagradalsfjall og upp að Arnarvatni við Seltún. Siglingaklúbburinn Þytur tók á móti stórum hóp, kynnti starfsemi sína og bauð öllum á kayak í Hafnarfjarðarhöfn. Farið var í sjósund á Langeyrarmölum og svo notið hitans í heitu pottunum í Sundhöll Hafnarfjarðar.

Tveggja nátta lokaferð sem skipulögð var af hópnum

Lokaferðin var vegleg og tóku allir þátttakendur þátt í að skipuleggja hana í sameiningu. Farið var í tvær nætur, gist á Hvoli á Kirkjubæjarklaustri, farið í jöklagöngu á Falljökul á Öræfajökli, íshellir heimsóttur og Jökulsárlón. Þátttakendur fengu mikla fræðslu um svæðið og um áhrif hlýnunar jarðar á jökla landsins. Dagurinn endaði svo í heitu pottunum í sundlaug Kirkjubæjarklausturs. Á heimleiðinni voru Fjarðárgljúfur, Vík, Reynisfjara, Skógafoss, Seljalandsfoss og Gljúfrabúi heimsótt.

Lokaferð hópsins endaði á jökli

Lokaferð hópsins endaði á jökli

10-20 þátttakendur í hverri einustu viku

Óhætt er að fullyrða að Úti-Hamarinn hafi tekist með eindæmum vel og fór þátttakan fram úr björtustu vonum starsfólks Hamarsins en alltaf mættu 10-20 þátttakendur o til varð virkilega góður og sterkur hópur ungs fólks frá Íslandi, Japan, Chilé, Kanada, Rússlandi, Þýskalandi, Palestínu, Írak, Sýrlandi og Venesúela. Sérstakar þakkir fá Tröllaferðir, Góa, Dagný og co, Katla og Iðnmark fyrir sinn stuðning við verkefnið og einnig allt það fólk sem sá til þess að unga fólkið væri útbúið fyrir íslenskar aðstæður þegar allra veðra er von.

Ábendingagátt